Niðurstöður efnaeftirlits

Umhverfisstofnun hefur umsjón með framkvæmd efnalaga nr. 61/2013 og fer með eftirlit eftir því sem kveðið er á um í lögunum. Í því skyni hefur stofnunin eftirlit með meðferð og markaðssetningu efna, efnablandna og hluta sem falla undir lögin með samræmdum hætti á landinu öllu auk þess sem stofnunin útbýr eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn.

Hér birtast upplýsingar um niðurstöður eftirlits og til hvaða úrræða stofnunin hefur gripið jafnóðum og ákvarðanir um slíkt liggja fyrir í samræmi við 5. mgr. 49. gr. efnalaga.  Samantektir um niðurstöður sértækra eftirlitsverkefna sem unnin eru samkvæmt eftirlitsáætlun má nálgast hér

2019

Papco hf.

Eftirlit með vanmerktum efnavörum

Umhverfisstofnun barst ábending frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að varan Premisian Plus hard surface cleaner, sem Papco hf. er ábyrgt fyrir markaðsetningu á hérlendis, uppfylli ekki skilyrði laga og reglugerða varðandi merkingar. Skoðun á merkingu vörunnar,  leiddi í ljós að viðvörunarorð, hættusetningar og varnaðarsetningar á íslensku vantaði á umbúðir hennar og gerði stofnunin kröfur um að það yrði lagfært. Jafnframt var farið fram á að nafni, heimilisfangi og símanúmeri þess birgis sem er ábyrgur fyrir íslensku merkingunni yrði bætt við.  Umhverfisstofnun veitti fyrirtækinu frest til  9. desember 2019 til að senda henni afrit af íslenskum merkimiða fyrir vöruna sem er uppfærður  í samræmi við gildandi reglur. Jafnframt er gerð krafa um að sölueintök vörunnar á vörulager og sölustöðum verði endurmerkt með réttri merkingu þegar hún liggur fyrir og hefur verið staðfest af Umhverfisstofnun.

Eftirlitsskýrsla
Kröfur um úrbætur 
Málaflokkur: Flokkun, merkingar og umbúðir
Hvernig eftirlit: Í kjölfar ábendingar

 

Rekstrarvörur ehf

Eftirlit með vanmerktum efnavörum

Umhverfisstofnun barst ábending um að vörurnar Fairy Original, Fairy Original Lemon og Persil Bio – Family Pack, sem Rekstrarvörur ehf. eru ábyrgar fyrir markaðsetningu á hérlendis, uppfylli ekki skilyrði laga reglugerða varðandi merkingar. Eftirlit í verslunina, að Réttarhálsi 2,  leiddi í ljós að viðvörunarorð, hættusetningar og varnaðarsetningar á íslensku vantaði á umbúðir varanna og gerði stofnunin kröfur um að það yrði lagfært. Jafnframt var farið fram á að nafni, heimilisfangi og símanúmeri þess birgis sem er ábyrgur fyrir íslensku merkingunni yrði bætt við. Rekstrarvörur ehf. brugðust við niðurstöðum eftirlitsins með því að merkja vörurnar í versluninni á þann hátt að þær uppfylltu kröfur reglugerðar.

Eftirlitsskýrsla 
Málaflokkur: Flokkun, merkingar og umbúðir, þvotta- og hreinsiefni
Hvernig eftirlit: Í kjölfar ábendingar

 

Kj. Kjartansson ehf.

Eftirlit með tannhvítunarvörum 

Umhverfisstofnun barst ábending um innihaldsefni í tveimur tannhvítunarvörum  sem háð eru takmörkunum. Eftirlitið leiddi í ljós að styrkur efnisins karbamíðperoxíðs í annarri vörunni,  White Kiss FLASH Dental Whitening Kit, er yfir leyfilegum mörkum í sölu til almennings. Auk þess uppfyllir varan ekki skilyrði um merkingar. Birgir vörunnar brást við niðurstöðum eftirlitsins að eigin frumkvæði með því að hætta markaðssetningu hennar og innkalla vöruna úr verslunum.

Eftirlitsskýrsla
Málaflokkur: Snyrtivörur
Hvernig eftirlit: Í kjölfar ábendingar

 

Costco Wholesale ehf.

Eftirlit með vanmerktum efnavörum

Eftirlit vegna ábendingar um að merkingar vörunnar Ronseal Decking Cleaner & Reviver uppfylli ekki skilyrði efnalaga leiddi í ljós frávik frá 32. gr. efnalaga nr. 61/2013. Costco Wholesale ehf. brást við bráðabirgðarniðurstöðum eftirlitsins með því að taka vöruna úr sölu og samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu verður hún endursend til erlends birgis vörunnar og ekki markaðssett hér á landi framvegis.

Eftirlitsskýrsla
Málaflokkur: Flokkun og merking, þvotta- og hreinsiefni.
Hvernig eftirlit: Í kjölfar ábendingar