Ramsarsvæði


Ramsarsamningurinn dregur nafn sitt af borginni Ramsar í Íran þar sem hann var fyrst samþykktur 2. febrúar 1971. Hann var fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem var gerður sem fjallar um vernd og nýtingu ákveðinna búsvæða eða vistkerfa. Kveikjan að gerð samningsins voru áhyggjur manna af fækkun í mörgum stofnum anda og gæsa og annara votlendisfugla og stöðugur ágangur á búsvæði þeirra. Yfirlýst markmið samningsins er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem lífsvæði fyrir fugla. Ramsarsamningurinn skilgreinir votlendi sem hverskonar mýrar, flóar, fen og vötn bæði náttúrulega og tilbúin, varanlega og óvaranleg með kyrru vatni eða rennandi, fersku, hálfsöltu eða söltu og þar á meðal sjór allt að sex metra dýpi.

Aðaláherslan í því starfi sem fer fram undir hatti Ramsarsamningsins hefur verið að vernda þau votlendissvæði sem eftir eru í heiminum, en þeim hefur farið fækkandi á undanförnum áratugum. Samtímis hefur mönnum þó orðið ljóst hversu mikla þýðingu votlendi hefur fyrir afkomu manna. Í seinni tíð hefur því verið lögð áhersla á fræðslu um það hvernig hægt er að nýta votlendissvæði án þess að raska þeim.

Við val á Ramsarsvæðum er horft til ákveðinna skilyrða sem ákvarða hvort svæðið teljist sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði. Skilyrðin eru alls 9 og þarf svæðið að uppfylla eitt þeirra til að geta verið skráð sem Ramsvarsvæði. Meðal annars er horft til þess hvort tiltekin tegund votlendis innan svæðisins sé sjaldgæf og hvort þar séu sjaldgæfar plöntur, dýr og vistgerðir. Ef svæðið er búsvæði fyrir minnst 20.000 votlendisfugla eða meira en 1% af stofni telst það mikilvægt á alþjóðavísu. Svæðin sem eru skráð undir Ramsarsamninginn njóta sérstakar athygli og ekki má breyta vistfræðilegum eiginleikum þeirra eða minnka þau nema vegna þjóðarhagsmuna. Ef votlendi á skrá samningsins er raskað verður að bæta fyrir það eins og hægt er á sama stað eða þar sem lífríkisaðstæður eru svipaðar.

Á Íslandi eru sex friðlýst svæði skráð sem Ramsarsvæði: Andakíll, Grunnafjörður, Guðlaugstungur, Mývatn og Laxá, Snæfells- og Eyjabakkasvæðið og Þjórsárver. Umhverfisstofnun fer með umsjón allra þessara svæða nema Snæfells- og Eyjabakkasvæðið, sem heyrir undir Vatnajökulsþjóðgarð