Umhverfistofnun - Logo

Teigarhorn

Teigarhorn var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 og sú friðlýsing endurnýjuð 15. apríl 2013 en svæðið einn þekktasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heimi. Geislasteinarnir eru í klettum og sjávarhömrum á Teigarhorni og veðrast fram öðru hverju. Óviðkomandi er óheimilt að hrófla við jarðmyndunum. Teigarhorn er þekktast fyrir geislasteinategundirnar skólesít, stilbít, epistilbít, analsím og heulandít. Markmið friðlýsingarinnar eða varðveita og viðhalda náttúrulegu ástandi svæðisins með tilliti til þeirra jarðlaga sem eru ríka af geislasteinum.

Jörðin Teigarhorn hlaut einnig friðlýsingu 15. apríl 2013 sem fólkvangur. Jörðin Teigarhorn er þekkt fyrir jarðmyndanir og atvinnu- og menningarsögu. Innan marka jarðarinnar er Weywadthús sem byggt var af Níels P.E.Weywadt sem var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Á Teigarhorni var starfrækt ljósmyndastofa Nicoline Weywadt sem var fyrst kvenna til að nema ljósmyndun á Íslandi, en hún lauk námi frá Danmörku árið 1872. Einnig er innan marka fólkvangsins náttúruvættið á Teigarhorni sem friðlýst er vegna geislasteina (Zeólíta) sem þar eru. Markmið með friðlýsingu jarðarinnar er að tryggja útivistarsvæði í fögru umhverfi þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast sérstakri náttúru svæðisins og sögu jarðarinnar Teigarhorns.

Fólkvangurinn er 2010 ha að stærð.