Til að fylgjast með styrk þrávirkra lífrænna efna og þungmálma í lífríki óháð uppsprettu hefur átt sér stað vöktun á þorski frá árinu 1990. Sýnatakan hefur verið í umsjá Hafrannsóknastofnunar frá upphafi og fer hún fram á NV- og NA- miðum. Matís sér um efnagreiningar á sýnunum og einnig að skila niðurstöðum í gagnagrunn ICES.
Þrávirk lífræn efni berast út í umhverfið á margvíslegan hátt, skolast t.d. úr jarðvegi og urðunarstöðum eru í útblæstri frá ýmsum iðnaðarferlum. Auk þess að berast til sjávar með fráveituvatni og öðru afrennsli flytjast þau með loftstraumum og falla til jarðar og í sjó. Þessi efni geta safnast fyrir í lífverum og magnast eftir því sem ofar dregur í fæðikeðjunni. PCB (pólýklórbífenýlsambönd) er manngerður efnaflokkur sem inniheldur alls 209 þrávirk efni, sem hafa m.a. neikvæð áhrif á frjósemi og ónæmiskerfi lífvera. Framleiðslu efnanna var að mestu hætt í okkar heimshluta á 8. áratugnum, en þau voru m.a. notuð í málningu, múrsteypu og lím, sem mýkingarefni í plast, og í spennubreyta, rafþétta, glussaolíur og varmaskipta. Farið var í aðgerðir hér á landi (á 9. og 10. áratug síðustu aldar) til draga úr losun PCB út í umhverfið og eru nú uppsprettur PCB hér á landi taldar óverulegar og hefur styrkur PCB í þorsklifur minnkað marktækt. Í samantekt OSPAR á ástandi Norðaustur-Atlantshafsins kemur fram að styrkur PCB í lífríki sé svipaður hér við land og á öðrum sambærilegum hafsvæðum og undir þeim mörkum sem talin eru vera skaðleg lífríki.