Lundey í Kollafirði

Lundey í Kollafirði var friðlýst sem friðland þann 8. júní 2021.  

 Lundey er í innanverðum Kollafirði milli Geldinganess og Brimness á Kjalarnesi. Eyjan er um 400 metra löng og um 150 metra breið þar sem hún er breiðust. Hún er lægst að austanverðu en hækkar til vesturs og er um 14 m.y.s. þar sem hún er hæst. Eyjan er að mestu úr grágrýti, algróin og stórþýfð.

Verndargildi Lundeyjar felst fyrst og fremst í stórri sjófuglabyggð, einkum lundabyggð sem a.m.k. stundum getur talist alþjóðlega mikilvæg með yfir 10 þúsund pör. Þá eru allir algengustu varpfuglar eyjarinnar á válista, lundi, rita, æður og teista. Í Lundey er einnig að finna sérstætt gróðurlendi, gulstör í bland við haugarfa.

Markmiðið með friðlýsingu Lundeyjar er að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni með því að vernda mikilvægt fuglasvæði í nágrenni Reykjavíkur auk sérstæðs gróðurlendis. Einnig er markmiðið að vernda lífríki í fjöru og á grunnsævi, lífríki á hafsbotni og hafsbotninn sjálfan.

Gróður 

 Í Lundey hafa fundist 11 tegundir háplantna. Ofan til á eyjunni er mest af haugarfa ásamt vallarsveifgrasi, túnsúru, túnvingli og brennisóley. Þegar neðar dregur verður túnvingullinn og vallarsveifgrasið mest áberandi ásamt túnsúru. Á tveimur stöðum austast á eyjunni eru gróskulegir blettir með gulstör þar sem hún blandast með haugarfa sem er afar sjaldgæft.

Í klettunum í sunnanverðri eyjunni er mikið um holurt, túnsúru, vallarsveifgras og túnfífla. Í fjörunni finnast skarfakál, sjávarfitjungur og baldursbrá.

Fuglalíf 

Yfir 20 tegundir fugla hafa orpið í Lundey, en á síðustu árum hafa 13 tegundir orpið þar að staðaldri og eru sjófuglategundir þar í miklum meirihluta. Lundi er langalgengasti varpfuglinn og er áætlað að í eyjunni séu um 10 þúsund lundaholur. Misjafnt er hversu margar þeirra eru í ábúð hverju sinni.

Rita er næst algengasti fuglinn, eða um 500 pör. Í Lundey er einnig mikið af teistu, æðarfugl, sílamáfur, fýll, svartbakur, tjaldur, sandlóa, stelkur, hrossagaukur, þúfutittlingur, grágæs og stokkönd. Einnig hafa hettumáfur, kría, skúfönd, toppönd, maríuerla og snjótittlingur verpt í eynni.

Friðlandið er 1,74 km2 að stærð.

Önnur tengd skjöl: