Innkirtlatruflandi efni

Innkirtlatruflandi efni (e. endocrine disrupting chemicals, EDCs), einnig kölluð hormónaraskandi efni (e. hormone disrupting chemicals), eru manngerð og náttúruleg efni eða efnablöndur sem trufla hormónastarfsemi lífvera með hugsanlegum skaðlegum áhrifum á heilsu þeirra. Þau eru til staðar í vörum sem við notum dags daglega og geta hermt eftir náttúrulegum hormónum líkamans.

Hvar er líklegt að finna þau?

  • Vörum sem við notum í okkar daglega lífi, t.a.m.:
  • Textíl
  • Húsgögnum
  • Raftækjum
  • Leikföngum
  • Snyrtivörum
  • Málningu
  • Plastvörum
  • Losun frá atvinnustarfsemi, t.a.m.:
  • Byggingarefni
  • Útblæstri
  • Úrgangi
  • Ryki
  • Seyru

Hvernig geta þau komist inn í líkamann?

  • Í gegnum fylgjuna til fósturs
  • Í gegnum fæðuna
  • Með innöndun
  • Með upptöku í gegnum húð

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Dregið úr frjósemi
  • Flýtt fyrir kynþroska
  • Haft áhrif á gæði sæðisfrumna
  • Aukið líkur á krabbameini, t.a.m. í eistum
  • Aukið líkur á fæðingargöllum á kynfærum drengja
  • Aukið líkur á skjaldkirtilssjúkdómum
  • Aukið líkur á offitu og sykursýki 2
  • Aukið líkur á hjartasjúkdómum
  • Truflað efnaskipti líkamans
  • Truflað þroska ónæmiskerfisins
  • Truflað þroska taugakerfisins
  • Lækkað fæðingarþyngd nýbura
  • Haft áhrif á lengd meðgöngu

Hverjir eru viðkvæmastir?

  • Fóstur
  • Ungabörn
  • Einstaklingar á kynþroskaskeiðinu

Hvað getum við gert?

  • Minnka neyslu, kaupa minna.
  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu, helst án ilmefna.
  • Velja textíl merktan Oeko-Tex 1000.
  • Þvo eða þurrka af og lofta um vörur áður en þær eru teknar í notkun.
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.
  • Lofta út hýbýli a.m.k. tvisvar á dag, að lágmarki 5 mín í senn.
  • Takmarka snertingu við efni s.s. málningu, úðaefni og hárlitunarvörur.
  • Neyta fjölbreyttrar fæðu daglega.
  • Mikilvægt er að velja vörur vel og minnka notkun t.a.m. snyrtivara og ilmefna þegar við erum ófrísk eða með barn á brjósti.
  • Nota ekki daglega smyrsl, sápur eða álíka vörur á ungbarnið.
  • Kaupum ekki leikföng sem eru án CE-merkinga, velja ilmefnalaus leikföng og henda gömlum mjúkum plastleikföngum sérstaklega þeim sem framleidd voru fyrir 2007 (þá voru settar strangari reglur).
  • Sýna varkárni varðandi vörur utan EES svæðisins en það er með ströngustu kröfur um efnainnihald í heiminum.

Þekkt og grunuð innkirtlatruflandi efni

Listi yfir þekkt og grunuð innkirtlatruflandi efni á ensku sem er haldið er úti af Umhverfisstofnun Danmerkur í samstarfi við upplýsingar frá fimm öðrum ESB löndum.

Innkirtlakerfið okkar

Innkirtlakerfið samanstendur af innkirtlum (e. endocrine glands) sem finnast víðsvegar um líkamann t.a.m. heiladingull, skjaldkirtill, nýrnahettur og hóstarkirtill. Innkirtlar líkamans mynda hormón sem eru boðefni líkamans sem ferðast með blóðrásinni. Hormón eru send út í blóðrásina eftir þörfum og bindast við ákveðnar markfrumur (e. target cells), en innkirtlakerfið er flókið kerfi samskipta á milli taugakerfisins og helstu starfsemi líkamans t.a.m. efnaskipti, æxlun, ónæmiskerfið, hegðun og vöxt og þroska. Hægt er því að líkja hormónum við eins konar sendiboðum sem koma skilaboðum áfram á milli staða. Innkirtlakerfið finnst ekki einungis hjá okkur mannfólkinu heldur einnig spendýrum, fuglum, fiskum og mörgum öðrum tegundum.

Innkirtlatruflandi efni

Innkirtlatruflandi efni (e. endocrine disrupting chemicals, EDCs), einnig kölluð hormónaraskandi efni (e. hormone disrupting chemicals), eru manngerð og náttúruleg efni eða efnablöndur sem trufla hormónastarfsemi lífvera með hugsanlegum skaðlegum áhrifum á heilsu þeirra eða afkvæma. Efnin geta hermt eftir hinum ýmsu hormónum t.a.m. estrógeni, andrógeni og skjaldkirtilshormónum og gerir líkaminn þá ekki greinarmun á náttúrulegum hormónum líkamans eða aðskotaefnunum. Því geta þau aukið eða hamlað áhrif náttúrulegra hormóna á líkamann eða truflað hvernig hormónin myndast, brotna niður eða flytjast í líkamanum.

Lítið magn af innkirtlatruflandi efnum þarf til að geta truflað hormónajafnvægi og starfsemi þar sem hormón verka yfirleitt í mjög litlu magni hverju sinni. Möguleg áhrif efnanna koma oft ekki fram fyrr en töluvert eftir snertingu við þau. Því hefur ekki verið eins augljós tenging við mjöguleg áhrif þessara efna á heilsu manna og umhverfis, en skaðleg áhrif hafa verið mun sýnilegri á aðrar lífverur, einkum vatnalífverur. Talið er að efnin sem hafa verið tengd við skaðleg áhrif á dýr geti mögulega valdið áhrifum á mannfólk en enn sem komið er hafa færri rannsóknir verið gerðar í tengslum við áhrif á okkur mannfólkið.

Vísindasamfélagið hefur mestar áhyggjur af mögulegum áhrifum efnanna á fóstur og ungabörn þar sem ýmis líffæri, kirtlar og önnur kerfi þróast yfir stuttan tíma og skiptir hormónastarfsemi og jafnvægi miklu máli við vöxt og þroska þeirra. Að auki geta ungabörn verið í meiri snertingu við efnin heldur en fullorðnir því þau eyða meiri tíma á gólfinu og eru gjörn á að stinga hlutum upp í munninn. Efnin geta samt sem áður haft áhrif hvenær sem er á æviskeiðinu og ber að sýna varkárni þegar gengið er í gegnum kynþroskaskeiðið en sami efnastyrkur hefur ekki sömu áhrif á ólík æviskeið.

Þegar verið er að meta hættu af völdum efnanna er mikilvægt að meta þau saman í uppsöfnuðu magni. Við komumst yfirleitt í snertingu við efnin í tiltölulega litlu magni en takmörkuð þekking er á því hvernig mörg efni, sem við erum í daglegri snertingu við, hafi áhrif á heilsu okkar. Því er gott að reyna minnka snertingu okkar við möguleg varasöm efni eins og við getum með því að auka efnalæsi, velja umhverfismerktar vörur og nota minna.

Til þess að takmarka og/eða banna efni þarf fyrst að rannsaka þau og sanna orsök og afleiðingu þeirra. Efnin kunna líka að vera notuð til að ná fram eftirsóttum eiginleikum í vörum og það getur þurft að vega og meta hættuna sem fylgir tilteknu efni í samanburði við ávinninginn af notkun þess, til dæmis í rannsóknarskyni. Það getur því tekið þónokkurn tíma að koma takmörkunum varðandi efni inn í regluverk og einungis er búið að rannsaka brot af þeim efnum sem eru í umferð.

Fróðleiksmoli – Evrópusambandið áformar að gera breytingar á reglum um flokkun, merkingu og umbúðir hættulegra efna og efnablandna (CLP). Tilgangur breytinganna er að auðvelda neytendum val á efnavörum með skýrari upplýsingum um áhættu. Ráðgert er að fjölga hættuflokkum til að bæta við efnum sem eru talin hormónaraskandi eða þrávirk. ESB samráðsgátt um málið er hér.


Tengt efni:

Almennt um hormónaraskandi efni og umfjöllun með fókus á atvinnulífið á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Almennt um hormónaraskandi efni á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Almennt um hormónaraskandi efni á sænsku á heimasíðu Karolinska Institutet.

Skýrsla um stöðu vísindaþekkingar á innkirtlatruflandi efnum 2012 á ensku birt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNEP).

Umfjöllun um innkirtlatruflandi efni á ensku á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (e. ECHA). 

Umfjöllun um innkirtlatruflandi efni á ensku á heimasíðu framkvæmdarstjórnar ESB.


Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 10. apríl 2024.