Búrfell, Garðabæ

Búrfell er eldstöð með fallegri og heillegri hrauntröð, Búrfellsgjá, sem er um 3,5 km löng. Frá Búrfelli hefur runnið mikið hraun sem þekur um 18 km2 lands í dag. Innan svæðisins eru fornminjar, svo sem Gjáarétt sem er í vesturenda Búrfellsgjár, fyrirhleðslur, Réttargerði og vatnsbólið Vatnsgjá. Náttúruvættið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt útivistarsvæði, ekki síst vegna nálægðar þess við þéttbýli höfuðborgarsvæðisins. 

Er markmiðið með friðlýsingunni að vernda eldstöðina ásamt hrauntröðinni en verndargildi svæðisins byggir fyrst og fremst á jarðmyndunum sem hafa hátt vísinda-, fræðslu- og útivistargildi, auk gróðurfars. Þá er friðlýsingunni ætlað að auðvelda umgengni og kynni af náttúruminjum.