UFI-kóðar fyrir efnablöndur

UFI-kóðar fyrir efnablöndur

Nýjar kröfur frá 1. janúar 2021

Frá 1. janúar 2021 (frestur hefur verið framlengdur frá upprunalegri kröfu um 1. janúar 2020) þarf svokallaður UFI-kóði að koma fram á umbúðum og í öryggisblöðum fyrir hættuflokkaðar efnablöndur sem settar eru á markað. Vörur sem krefjast UFI-kóða en voru settar á markað í fyrsta skipti fyrir 1. janúar 2021 mega lengst vera á markaði án kóðans til 1. janúar 2025.

Hvað er UFI-kóði?

UFI er skammstöfun fyrir Unique Formula Identifier eða einkvæmt formúluauðkenni. UFI-kóðinn er samsettur úr 16 stöfum (bókstöfum og tölustöfum) sem skipta má í fjóra 4 stafa hópa með bandstrikum. UFI-kóði er einkennandi fyrir tiltekna efnasamsetningu og því þurfa allar vörur sem bera sama UFI-kóða að hafa sömu efnasamsetningu. Nota má mismunandi kóða fyrir blöndur með sömu efnasamsetningu kjósi menn svo, t.d. vegna gagnastjórnunar eða af viðskiptalegum ástæðum.

UFI-kóði gæti til dæmis litið svona út: H563-L90S-R783-J823

Það er á ábyrgð framleiðenda efnablandna að búa til UFI-kóða fyrir sýnar vörur. Til að útbúa UFI-kóða þarftu:

  1. VSK númer fyrirtækisins
  2. Sértækt númer fyrir viðkomandi efnasamsetningu (e. formulation number). Þetta er tala á bilinu 0 til 268 435 455 sem þú velur fyrir viðkomandi efnasamsetningu. Einfaldast gæti verið að gefa efnablöndum sem fyrirtækið framleiðir raðnúmer frá 0.

Með því að skrá þetta tvennt inn í UFI merkjavaka (e. UFI Generator) hjá Efnastofnun Evrópu (ECHA) má búa til UFI-kóða (sjá nánari leiðbeiningar hér að neðan). Það kostar ekkert að búa til UFI-kóða fyrir efnablöndu.

Í hvað er UFI-kóðinn notaður?

Eins og fram kemur að ofan á UFI-kóðinn bæði að koma fram á umbúðum og í öryggisblöðum fyrir hættuflokkaðar efnablöndur. Frá 2021 þurfa framleiðendur slíkra efnablandna einnig að skila upplýsingum um þær í miðlæga vefgátt hjá Efnastofnun Evrópu. Þar þarf meðal annars að koma fram nákvæm efnasamsetning hverrar vöru og UFI-kóði vörunnar. Gögnin sem skilað er í vefgáttina tengja þannig saman UFI-kóða og upplýsingar um efnasamsetningu. Þegar hringt er í eitrunarmiðstöð vegna slyss er hægt að gefa upp UFI-kóðann og starfsfólk eitrunarmiðstöðvar getur þá strax séð efnasamsetningu blöndunnar og veitt réttar upplýsingar um viðbrögð.

Fyrirtækjum er frjálst að skrá í vefgáttina upplýsingar um vörur þrátt fyrir að þær flokkist ekki sem hættulegar.

Hvenær þarf að uppfæra UFI-kóða?

Skipta þarf um UFI-kóða, endurmerkja og upplýsa eitrunarmiðstöðvar ef breyting verður á samsetningu blöndu. Þetta á við ef efni er fjarlægt, því skipt út, nýju bætt við eða styrk efnis breytt umfram viðmiðunarmörk. Ekki þarf að skipta um kóða ef vörunni er breytt á annan hátt, t.d. hvað varðar pakkningar eða vöruheiti.

Gagnaöryggi/viðskiptaleynd

Eins og nafnið gefur til kynna eru UFI-kóðar einkvæmir, þ.e. engir tveir eru eins og því engin skörun á kóðum milli fyrirtækja. Kóðinn sjálfur geymir engar upplýsingar um efnasamsetningu blöndunnar og því ekki hægt að afkóða upplýsingar um blönduna útfrá UFI. Einungis eitrunarmiðstöðvar munu geta flett upp hvaða efnasamsetning á við tiltekinn kóða.

UFI-kóði gæti til dæmis litið svona út á merkimiða:

Hér á næstu mynd sést hvernig UFI-kóði er búinn til í fjórum einföldum skrefum með rafrænni aðferð inni á UFI-merkjavakanum. Ýtarlegri notendaleiðbeiningar á ensku má nálgast hér.

 

 

Lesa má nánar um UFI og skráninguna í miðlæga eitrunarmiðstöð ECHA í reglugerð 2017/542 um breytingu á reglugerð 1272/2008 (EB) og á upplýsingasíðu hjá ECHA (hér), þar er m.a. annars að finna 47 mínútna vefnámskeið á ensku um UFI-kóðann og notkun hans. Einnig er til stutt kynningarmyndband, sjá hér.