Umhverfistofnun - Logo

Þrávirk lífræn efni

Sagt er að efni sé þrávirkt ef það binst í lífverum og eyðist mjög hægt. Slík efni safnast fyrir í umhverfinu. Þrávirk lífræn efni innihalda flest klór og er því oft talað um þrávirk lífræn klórsambönd. Efni af þessari tegund eru til í hundraðatali en þekktustu efnin eru skordýraeitur og önnur varnarefni eins og DDT (díklór-dífenýl-tríklóretan), hexaklórsýklóhexan (HCH, lindan), og hexaklórbensen (HCB). Dæmi um efni af öðrum uppruna eru PCB-efni (pólýklórbífenýlsambönd). Þessi efni eru afar stöðug í náttúrunni og eru fituleysanleg. Ef efnin berast inn í fæðukeðjuna setjast þau í fituríka vefi lífvera. Þau hafa þannig tilhneigingu til að safnast fyrir eftir því sem ofar kemur í fæðukeðjuna. Slík söfnun er þó mjög mismunandi eftir tegundum þar sem hæfni lífvera til að brjóta efnin niður er breytileg. Þrávirk lífræn efni geta haft margvísleg áhrif á lífverur. Alvarlegustu afleiðingarnar eru taldar vera neikvæð áhrif á viðkomu og ónæmiskerfi þar sem efnin geta líkt eftir hormónum og raskað hormónabúskap lífvera. Sum efnanna geta valdið krabbameini eða örvað vöxt þess. Ýmis ferli ráða því hversu hratt efni hverfa úr umhverfinu, líffræðilegt niðurbrot, efnaveðrun, rof eða flutningur frá einum þætti til annars. Þrávirk efni dreifast um hnöttinn með þrennu móti, með lofti, með dýrum og í vatni eða sjó. Hraðvirkasta flutningsleiðin er loftstraumar. Almennt flytjast 80% af lífrænum klórefnum til úthafanna með loftstraumum. HCH efni eru þó í sérflokki, þar sem áætlað er að 99% af þeim berist með loftstraumum.