Mývatn og Laxá

Af hverju eru Mývatn og Laxá friðlýst?

Mývatn og Laxá eru upphaflega friðlýst með lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1974.  Mývatn og Laxá eru nú vernduð samkvæmt sérstökum lögum nr. 97 frá 9. júní 2004. Markmið laganna er að stuðla að náttúruvernd í samræmi við sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum.

Lögin eiga að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni á víðáttumiklu vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.

Ákvæði laganna taka til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin. Auk þess ná lög þessi til eftirtalinna votlendissvæða, ásamt 200 m bakka meðfram vötnum, ám og lækjum: Sortulækjar, Geirastaðahrauns, Sandvatns ytra, Belgjarskógar, Slýja, Neslandatanga, Framengja, Krákár frá Strengjabrekku að Laxá, Grænavatns, Helluvaðsár og Arnarvatns, ásamt votlendi sem því tilheyrir. Þá taka lögin enn fremur til vatnsverndar á vatnasviði Mývatns og Laxár.

Hvað er áhugavert?

Mývatn

Mývatn  er um 150 km2 að stærð. Það er mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Meðaldýpi vatnsins er 2,5 m og mesta náttúrulega dýpi aðeins um 4 m. Lífríki Mývatns er einstætt og er nafn vatnsins dregið af þeim aragrúa mýs sem þar er. Talið að þar haldi sig fleiri andategundir en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Í Mývatnssveit er fjölbreytni í náttúrufari mikil og landslag sérstætt, enda mótað af miklum eldsumbrotum.

Jarðfræði

Mývatn er á flekamótum jarð-skorpufleka, Norður-Ameríku og Evrasíu. Þá rekur í sundur um 2 sm á ári en á samskeytunum kemur upp hraunkvika sem fyllir í skarðið og er eldvirkni þarna mikil.

Hverfjall (Hverfell)

Hverfjall (Hverfell) er formfagur gjóskugígur sem gaus fyrir rúmlega 2500 árum. Gígskálin er um 1 km í þvermál milli barma og um 140 m djúp. Gjóskuflóð hafa borist langar leiðir frá Hverfjalli (Hverfelli). Skriða hljóp úr gígbarminum til suðurs meðan á gosinu stóð og er hringlögun fjallsins því rofin þeim megin. Gígar af sömu gerð eru óvíða, þó er annar gígur, Lúdentarskál, mun eldri, skammt suðaustur af Hverfjalli (Hverfelli).

Laxárhraun yngra

Fyrir um 2300 árum varð mikið gos á um 12 km langri sprungu suður af Hverfjalli (Hverfelli). Ýmsar sérkennilegar jarðmyndanir eru í þessu hrauni sem nefnt hefur verið Laxárhraun yngra. Mikil gígaröð - Lúdentarborgir - myndaðist á gossprungunni en  Þrengslaborgir eru nafn á tveimur áberandi gígum sunnarlega á sprungunni.
Laxárhraun yngra flæddi um meginhluta Mývatnssveitar, lagðist yfir stórt stöðuvatn sem þar var. Hraunið rann niður Laxárdal og náði í sjó fram í Aðaldal. Þar sem vötn og votlendi urðu á vegi hraunsins náðu gufusprengingar víða að mynda gíga. Gígar af þessu tagi nefnast gervigígar því að þeir eru útrásir vatnsgufu en ekki hraunkviku. Þyrpingar formfagurra gervigíga eru allt í kringum Mývatn og einnig í Laxárdal og Aðaldal. Margir gíganna eru tvöfaldir og sumir þrefaldir. Stærstu gervigígarnir eru við Vindbelg.

Dimmuborgir eru afar sérstæðar hraunmyndanir í Laxárhrauni yngra. Hrauntjörn hefur myndast meðan á gosinu í Lúdentarborgum stóð. Tjörnin hefur síðan fengið framrás til vesturs í átt að Mývatni en eftir standa háir hraundrangar. Talið er að drangarnir hafi myndast í hrauntjörninni þar sem gufa leitaði upp í gegnum bráðið hraunið og kældi það. Víða má sjá láréttar línur sem mynduðust þegar yfirborð tjarnarinnar seig í áföngum. Sams konar hraunmyndanir og Dimmuborgir finnast á hafsbotni undan ströndum Mexíkós en munu ekki kunnar á þurru landi utan Mývatnssveitar. Hraundrangarnir við Höfða (Klasar og Strípar) eru svipaðar hraunmyndanir og sumar umflotnar vatni.

Kröflueldstöðin

Svæðið umhverfis Leirhnjúk er megineldstö. Fyrir um 100 þúsund árum var þarna eldkeila sem gaus miklu gosi en seig að því loknu ofan í sjálfa sig. Askjan sem þá myndaðist er nú barmafull af síðari tíma gosefnum svo að landið er slétt yfir að líta. Undir er þó kvikuhólf á um þriggja km dýpi. Á nokkurra alda fresti verður eldstöðin óvenju virk. Kvika streymir inn í kvikuhólfið sem þenst út, og landið rís. Síðan brestur hólfið skyndilega, kvika hleypur neðanjarðar eftir sprungum til norðurs eða suðurs og um leið gliðnar jarðskorpan. Hluti kvikunnar getur spýst upp á yfirborðið í eldgosi. Þegar þrýstingur minnkar í hólfinu sígur landið hratt. Þessi atburðarás endurtekur sig á fárra mánaða fresti í nokkur ár samfleytt. Mývatnseldar hófust árið 1724 með miklu sprengigosi er myndaði Víti. Næstu árin komu hrinur jarðskjálfta og eldgosa í nágrenni Kröflu. Mesta gosið varð 1729 er hraun rann ofan frá Leirhnjúk alla leið niður í Mývatn. Hraunið sem þar brann (Eldhraun) er enn lítt gróið og liggur milli Reykjahlíðar og Grímsstaða.

Eldvirkni tók sig upp að nýju við Kröflu (Kröflueldar) árið 1975 eftir tæplega 250 ára hlé. Eldgos urðu níu sinnum á jafn mörgum árum.

Lífríki við Mývatn og Laxá

Mývatn varð til þegar Laxárhraun eldra stíflaði farveg Laxár fyrir um 3800 árum. Úrkomuvatn hripar hratt niður í hraunið og kemur fram sem lindarvatn við jaðar þess. Mývatn er eitt þessara lindasvæða. Um 35 rúmmetrar af vatni streyma á hverri sekúndu úr ótal lindum, köldum og volgum við austur- og suðurbakka vatnsins og frá Grænavatni. Þetta vatn er auðugt af steinefnum og er ein meginundirstaða frjóseminnar í Mývatni. Með aðstoð sólarbirtunnar, sem er óvenju mikil á þessu svæði, verður ríkulegur vöxtur kísilþörunga í vatninu en á þeim lifa svo mýlirfur og krabbadýr sem eru mikilsverð áta fugla og fiska. Mývatn er nægilega stórt og vatnsendurnýjun þess mátulega hæg til að lífríki blómstri þrátt fyrir að vera í 278 m hæð yfir sjávarmáli. Á vatnsbotninum er urmull af mýflugulirfum af mörgum tegundum en þær púpa sig og taka á sig mýflugumynd á vissum tímum sumars, einkum í byrjun júní og ágúst. Karlflugurnar safnast í þétta stróka á vatnsbökkum og yfir hólum og hæðum á lognkyrrum dögum. Þessar mýflugur nefnast einu nafni rykmý og eru meinlausar.

Laxá fellur úr Mývatni í þremur farvegum, Ystukvísl, Miðkvísl og Syðstukvísl. Áin skoppar í smáfossum með lygnum pollum á milli, innan um fallega gróna hólma með blágresi, hvönn, sóleyjum og víði. Þarna eru höfuðból húsandar og straumandar og urriðaveiði er ein sú besta í heimi. Vatnið í Mývatni fær oft á sig græn- eða brúnleitan blæ á sumrin og stafar það af bláþörungum í vatninu. Þeir berast út í Laxá ásamt öðrum sviflífverum og gruggi úr Mývatni og eru megingrundvöllur fæðukeðjunnar. Laxá er frjósamasta straumvatn á Íslandi. Bitmýslirfur sía efnin úr árvatninu og eru mikilvægasta ætið í ánni. Kvenflugurnar sjúga blóð úr kvikfé og fólki og fá þannig næringu til æxlunar.

Mývatn og Laxá eru á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum.

Mývatn er meðal stærstu vatna á Íslandi, um 37 km2 að stærð. Það er mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Vatnið er ekki djúpt, meðaldýpi þess er 2,5 m og mesta náttúrulega dýpi aðeins um 4 m.

Fuglalíf

Húsönd er einkennisfugl Mývatns og Laxár. Stofninn, um 2000 fuglar, byggir tilvist sína á vatnakerfi Laxár og Mývatns. Húsöndin er staðfugl og heldur til á vökum sem eru allan veturinn á ánni og vatninu. Húsöndin er ein fárra tegunda sem upprunalega eru komnar vestan um haf. Í Klettafjöllum Norður-Ameríku verpir hún í holum trjám, en við Mývatn býr hún um sig í holum í hrauninu. Einnig er nokkurt varp í fjárhúsum og hlöðum, m.a. í hreiðurkössum sem sérstaklega hafa verið útbúnir fyrir fuglana.

Stærsta flórgoðabyggð landsins er í Mývatnssveit og verpa þar yfir 200 pör að jafnaði. Flórgoðinn gerir sér flothreiður í gróðri við vatnsbakkann, oftast í runnum sem slúta út í vatnið eða í sefi. Auk flórgoða og húsandar eru tvær fuglategundir sem óvíða finnast annars staðar hér á landi en við Mývatn og Laxá. Þetta eru hrafnsönd og gargönd. Hrafnsöndin er kafönd sem einkum sést við vatnið vestanvert. Steggirnir eru auðþekktir á alsvörtum lit. Gargöndin (litla gráönd) er buslönd sem sést á víða um svæðið.Straumendur finnast um allt land en eru hvergi algengari en á Laxá. Þær halda sig eingöngu í straumvatni á sumrin og sjást ekki á Mývatni.

Allar íslenskar tegundir vatnafugla, fyrir utan brandönd, verpa við Mývatn og Laxá. Skúföndin er algengust en duggönd, rauðhöfðaönd, urtönd og toppönd eru einnig algengar. Óðinshanar (nefndir sundhanar við Mývatn) eru einnig mjög algengir. Álftir og grágæsir eru víða og stór álftahópur heldur til á Mývatni yfir sumarið. Heiðagæsir verpa í hálendisdrögunum sunnan Mývatns en einnig lítillega við vatnið.

Nokkur pör af himbrima (brúsa) og lóm verpa í Mývatnssveit. Hettumáfar og kríur eru algengar og flestallar tegundir vaðfugla, spörfugla og ránfugla finnast á svæðinu. Rjúpur eru einkar algengar og allmörg fálkapör verpa þar, fáein brandugluhjón og nokkrir smyrlar.

Silungurinn

Bleikja er sá fiskur sem mest veiðist af í Mývatni en urriði veiðist þar einnig. Á köldu uppsprettusvæðunum í Mývatni er sérstakt bleikjuafbrigði, svonefnd krús, en í hellum í hrauninu eru dvergvaxnar bleikjur, gjáarlontur. Í efri hluta Laxár veiðist einkum urriði en aðeins lítið eitt af bleikju. Lax gengur í ána neðanverða. Bændur stunda netaveiði í Mývatni sumar og vetur og ganga einnig á dorg síðla vetrar, en í Laxá eru seld stangveiðileyfi.

Atvinnuhættir

Sauðfjárbúskapur hefur verið þýðingarmesti atvinnuvegurinn í Mývatnssveit öldum saman.
Hey fékkst úr eyjum og af vatnsbökkum og votlendi og flæðiengjar sunnan Mývatns (Framengjar) voru hvað þýðingarmestar, en tún voru lítil. Hey voru flutt heim á sleðum að vetrarlagi en víða má sjá leifar selja og beitarhúsa þar sem fé var haldið til beitar fjarri bæ sumar og vetur. Brennisteinn var numinn af hverasvæðum, t.d. í Námafjalli og Fremrinámum og fluttur út.
Hlunnindanýting á sér langa sögu. Silungsveiði hefur verið stunduð frá alda öðli, mikið á dorg á vetrum og lengi vel með fyrirdrætti og heimatilbúnum lagnetjum sumar og haust. Silungurinn er gjarnan ,,reyðaður" sem kallað er, þ.e. flattur og saltaður næturlangt en síðan reyktur við tað (saltreyð).
Nýorpin egg eru tínd úr hreiðrum algengustu fugla.
Kísilgúrverksmiðja var reist í Bjarnarflagi árið 1967 en þar eru kísilrík setlög úr botni Mývatns þurrkuð með jarðgufu. Verksmiðjunni var lokað í desember 2004. Kröfluvirkjun (1977) nýtir jarðhita við Kröflu til að framleiða raforku. Mývatnssveit er einn helsti ferðamannastaður landsins og er þar fjölbreytt ferðaþjónusta.
Hægt er að gista á hótelum og í bændagistingu eða tjalda á merktum tjaldsvæðum. Þar eru einnig veitingastaðir, matvöruverslun, minjagripaverslanir, sundlaug og Jarðböðin.

Fornminjar og þjóðfræði

Tvennar víðkunnar fornminjar tengjast Mývatnssveit. Frægt hneftafl úr kumli við Baldursheim er nú varðveitt á Þjóðminjasafninu. Á Hofsstöðum eru menjar 40 metra langs skála frá 10. öld.  Af fornköppum er Víga-Skúta nafntogaðastur. Hann átti öxina Flugu sem varð mörgum manni að bana. Af álfum og tröllum fer færri sögum en Skessan Kráka bjó í Bláhvammi utan í Bláfjalli og bjó hún til Kráká til að hefna sín á Mývetningum. Önnur skessa bjó í Skessuhala austan Mývatns en hana dagaði uppi í nökkva sínum á leið frá Mývatni og situr hún enn í Nökkvanum sem svo er nefndur sunnan undir Hverfjalli (Hverfelli). Af draugum er Grímsstaðaskotta nafnkenndust. Á nokkrum stöðum eru álagablettir og ýmsir höfðu trú á vatninu í Þangbrandspolli á Skútustöðum en þar skírði Þangbrandur biskup Mývetninga til kristinnar trúar.

Umhverfismál

Helstu umhverfismál Mývatnssveitar  varða orkuvinnslu ásamt eyðingu jarðvegs. Áform um stórvirkjanir í Laxá með tilheyrandi vatnaflutningum og uppistöðulónum leiddu til setningar laga um vernd svæðisins árið 1974, náttúrurannsóknastöð var komið á fót í kjölfarið. Gufuvirkjunin við Kröflu setur mikinn svip á umhverfið. Nokkurt gjallnám er í gíghólum á svæðinu, einkum Jarðbaðshólum. Mikil jarðvegseyðing hefur orðið austan Mývatns og var gróður og landslag í Dimmuborgum í hættu vegna sandfoks um tíma. Ástæður jarðvegseyðingarinnar eru ekki að fullu kunnar en orsakanna er líklega að leita í samspili beitar, loftslagsbreytinga og eldvirkni í Vatnajökli. Unnið er að uppgræðslu til að stöðva sandfokið.

Aðgengi

Hraunmyndanir láta fljótt á sjá ef þær eru brotnar eða á þeim traðkað. Fuglar eru viðkvæmir fyrir truflun. Skiljum aldrei eftir okkur rusl og höldum svæðinu hreinu. Akstur utan vega er óheimill. Virðum náttúruna og þann fjölbreytileika lífs og landslags sem í henni er. Tökum tillit til íbúa svæðisins. Förum varlega á jarðhitasvæðum og njótum dvalarinnar.

Gönguleiðir

Um Mývatnssveit liggja fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir. Hér er gefin stutt lýsing á þeim leiðum sem hafa verið merktar.

Vindbelgjarfjall

Leiðin hefst skammt austan við veginn að bænum Vagnbrekku,  um hálftíma að fjallinu annað eins upp á fjallið sem er úr móbergi og nær um 529 m hæð yfir sjó. Slóðin er nokkuð brött á köflum en hvergi  klifur. Leiðin er fær fyrir flesta og frábært útsýni er yfir sveitina af fjallinu.

Skútustaðagígar

Leiðin liggur umhverfis Stakhólstjörn á Skútustöðum og tekur gangan um eina klukkustund. Einnig er styttri hringleið inn á svæðið vestanvert og tekur 20-30 mín. að ganga hana. Þetta er auðveld ganga um gervigíga og í námunda við fjölbreytt fuglalíf. Mikilvægt er að fylgja göngustígum því að gróður er mjög viðkvæmur.

Kálfastrandarland

Þetta er hringleið sem hefst skammt innan við hliðið á heimreiðinni að Kálfaströnd og liggur út í Klasa, andspænis Höfða, og síðan til baka að veginum. Þetta er auðveld ganga um sérkennilegar hraunmyndanir og landslag. Oft má sjá smásilung í vogunum.

Dimmuborgir

Í Borgunum hafa verið merktar nokkrar gönguleiðir með mismunandi litum eru kort á öllum stígamótum sem sýna staðsetningu, afstöðu, lengd og áætlaðan tíma sem það tekur að ganga stígana.

  • Litli hringur liggur næst bílastæðinu og tekur 10-15 mín. að ganga hann.
  • Stóri hringur nær lengra inn á svæðið og tekur um hálftíma að fara hann.
  • Kirkjuhringurinn liggur að kirkjunni sem er enn lengra inn í hrauninu. Það tekur um klukkutíma að ganga hringinn.
  • Mellandahringurinn er um það bil þrjátíu mínútna aukakrókur sem auðveldar fólki að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem steðjaði/steðjar að Dimmuborgum vegna sandfoks og þeirri gífurlegu vinnu sem landgræðslan hefur lagt í svæðið.
  • Krókastígurinn er ögn erfiðari en fjölbreytt gönguleið sem tekum um 40 mínútur að ganga.

Allar þessar leiðir eru greiðfærar nema Krókastígurinn sem er ögn torfær á köflum. 

Stóragjá - Grjótagjá - Hverfjall - Dimmuborgir

Leiðin liggur frá vegamótum þjóðvegarins austan við vatnið og tekur gangan 2½ - 4 tíma. Milli Stórugjár og Grjótagjár er auðveld ganga (30-40 mín). Frá Grjótagjá að Hverfjalli (Hverfelli) er auðveld leið ef farið er með gát. Stígur liggur á Hverfjall (Hverfell) að norðvestan, aflíðandi og að sunnan er brött og fremur erfið slóð. Frá Hverfjalli (Hverfelli) að bílastæði við Dimmuborgir er 30-50 mín. ganga.

Grjótagjá - Jarðböðin - Hverfjall/Hverfell

Leiðin klofnar úr Grjótagjá –Hverfjalls (Hverfells) leiðinni 50m. austan við Grjótagjá. Auðvelt er að ganga leiðina. Tekur það 25-35 mínútur að ganga frá Grjótagjá að Jarðböðunum. Skömmu áður (u.þ.b.250m) en komið er að Jarðböðunum er hægt að fylgja merktri slóð að Hverfjalli ( Hverfelli). Sú leið er auðveld yfirferðar og tekur 45-60 mín að ganga.

Norðurstrandarhringur

Norðurstrandarhringur er hringleið sem tekur um 2-3½ klst. að ganga. Leiðin liggur frá þjóðveginum vestast í byggðinni í Reykjahlíð og eftir vatnsbakkanum. Vel má sjá áhrif vatnsins á gróðurinn í hrauninu næst bakkanum. Þegar komið er vestur á móts við Slútnes er gengið þvert yfir hraunið að Fagraneshólum. Einnig hægt að hefja ferðina þar ef menn vilja. Frá Fagraneshólum er gengið til Reykjahlíðar. Þetta er létt gönguleið og þar er talsvert um fuglalíf.