Friðland að Fjallabaki

Afhverju er Fjallabak friðlýst?

Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Tilgangur friðlýsingar er að varðveita sérstök landsvæði þannig að komandi kynslóðir hafi tækifæri til að njóta þeirra á sama hátt og við gerum. Til þess að svo geti orðið gilda ákveðnar reglur um umgengni til að hindra spjöll á náttúru eða röskun á svip landins. Fjölbreytt landslag, sérstakt en viðkvæmt lífríki, öræfaauðn og kyrrð eru meginenkenni Friðlands að Fjallabaki, og þangað leita árlega þúsundir manna til að njóta þessara náttúrugæða. Gestir svæðisins eru beðnir um að virða umgengnisreglur friðlandsins og leggja þannig sitt af mörkum svo að tilgangi friðlýsingar verði náð, þannig að allir bæði við og afkomendur okkar, fái notið náttúru friðlandsins til fullnustu.

Friðlandið er allt ofan 500 m hæðar yfir sjó. Landið er fjöllótt og mótað af eldvirkni, og jarðhita. Litadýrð er mikil, m.a. fyrir líparít og hrafntinnu í fjöllum. Hraun, ár og vötn setja líka svip á landslagið. Þúsundir ferðalanga leita ár hvert á vit öræfaauðnarinnar.

Ráðgjafarnefnd friðlands að Fjallabaki og Umhverfisstofnun vinna nú að gerð verndaráætlunar fyrir friðlandið. Lögð er áhersla á opið og gagnsætt ferli og hægt að nálgast allar upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar.

Hvar er friðlandið?

Friðlandið er 44.633,4 ha og er allt ofan 500 metra hæðar yfir sjó. Landið er fjöllótt, mótað af eldvirkni og jarðhita, þakið hraunum og söndum, ám og vötnum.

Hvað er áhugavert?

Jarðfræði

Á rekbeltinu sem klýfur landi, mjakast hvor frá annarri tvær af yfirborðsplötum jarðar. Basísk kvika (basalt) út möttli jarðar fyllir upp gapið á milli plantanna og myndar nýja skorpu (nýtt land).

Berggrunnur Friðlands að Fjallabaki myndaðist á vestra rekbeltinu Ameríkuflekanum, fyrir 8-10 milljónum ára. Eldvirkni hófst að nýju á svæðinu fyrir u.þ.b. tveimur milljónum ára við færslu eystra rekbeltisins til suðurs. Orsök eldvirkninnar á svæðinu nú er sú, að heit basísk kvika frá rekbeltinu norðan þess þrengir sér suður, bræðir upp jarðskorpuna og blandast henni í ýmsum hlutföllum.  Blandberg af þessu tagi er m.a. að finna í Laugahrauni, Námshrauni, Dómadalshrauni og Hrafntinnuhrauni.

Eldvirkni á svæðinu var mikil á síðasta kuldaskeiði Ísaldar, en þá mynduðust m.a. móbergsfjöllin Loðmundur og Mógilshöfðar, svo og líparítfjöllin Bláhnúkur, Brennisteinsalda og Kirkjufell.  Líparíthraun frá síðast hlýskeiði ísaldar má m.a. finna undir Norður Barmi og í Brandsgiljum.

Á nútíma (síðustu 10 þús. árum) hefur eldvirknin öll verið á belti sem liggur SV - NA yfir friðlandið frá Laufafelli til Veiðivatna.  Síðast gaus á 15. öld á um 40. km. langri gossprungu norðaustur af Landmannalaugum.  Þá mynduðust Veiðivötn, Laugahraun, Námshraun, Norðurnámshraun, Ljótipollur og mikill hluti vikursandsins sem þekur stór svæði á norðurhluta friðlandsins.

Bergtegundin líparít þekur um 2% af yfirborði Íslands og er Torfajökulssvæðið í suðurhluta friðlandsins stærsta líparítsvæði landsins. Líparítkvika er seig og köld og myndar þykk hraun, lítil að flatarmáli.  Við snögga kólnun myndar kvikan svart og gljáandi gler, svokallaða hrafntinnu, en annars er líparít venjulega grátt, gult, bleikt eða grænt á lit.  Þessi litadýrð stafar fyrst og fremst af jarðhitaummyndun, en Torfajökulssvæðið er eitt mesta jarðhitasvæði landsins eins og hinar fjölmörgu laugar og hverir bera vitni um.

Torfajökulssvæðið er virk megineldstöð.  Sumir jarðfræðingar telja eldstöðina vera Öskju, þ.e. að þar hafi staðið stórt eldfjall með kvikuhólfi undir niðri.  Við minnkandi þrýsting í kvikuhólfinu hafi toppur eldfjallsins sigið ofan í það, en leifar öskjubarmsins séu um Háöldu, Suðurnám, Norður Barm, Torfajökul, Kaldaklofsjökul og Ljósártungur.  Aðrir jarðfræðingar telja að ekki sé um öskju að ræða, heldur hafi fjöll þessi myndast í miklu gosi á síðasta kuldaskeiði.

Gróður

Plöntur eru frumframleiðendur.  Það þýðir að þegar þær vaxa nýta þær orku sólar til að binda ólífræn efni úr jarðvegi og lofti.  Allar aðrar lífverur lifa á plöntum ýmist beint eða óbeint.

Loftslag, jarðvegur og dýralíf ráða mestu um ástand gróðurs á hverjum stað.

Vegna hins kalda veðurfars í friðlandinu er vaxtartími plantna vart nema tveir mánuðir á ári og jarðvegsmyndum er ákaflega hæg.  Í jarðveginn vantar fullrotnuð og veðruð efni.  Hann er því grófur og sundurlaus og vindur og vatn bera hann auðveldlega úr stað.  Sandfok er mikið á svæðinu og í eldgosum kaffærast stórir hlutar þess í hrauni og ösku.  Ef allir þessir þættir eru hafðir í huga og að Landmannaafréttur hefur verið beittur um langan aldur, kemur það engum á óvart hve friðlandið er gróðurlítið.  Samfelldu gróðursvæðin eru frekar smá og þau stærstu og grösugustu í grennd við ár og vötn, t. d. Kýlingasvæðið sem er nær samfelldur flói með pollum og tjörnum og ýmsum votlendisplöntum. Hinn súri líparít-berggrunnur er gróðurlaus á stórum svæðum en móbergsfjöllin eru aftur á móti víða gróin fagurgrænum gamburmosa upp á eggjar.

Í friðlandinu hafa fundist um 150 tegundir af blómplöntum og byrkningum.  Á þurrum melum og hraunum er grasvíðir víða mjög áberandi en klófífa á votlendi.  Í kringum jarðhitann í Landmannalaugum er hálfgerður láglendisgróður.  Mýrastör er áberandi og blómfagrar engjarósir gleðja augu ferðamannsins.

Líf í vötnum

Vötn eru tiltölulaga einangraðir lífheimar.  Þörungar og háplöntur eru þar frumframleiðendur.  Frumframleiðslan er lítil í köldum vötnum og takmarkar fjölda þeirra lífvera sem þar fá þrifist.
Vötnin í Friðlandi að Fjallabaki eru köld fjallavötn.  Auk plantnanna lifa í þeim ýmis smádýr og silungar.  Urriði hefur gengið úr Tungnaá upp í Kýlinga og Kirkjufellsvatn.  Einnig hefur svo lengi sem menn muna verið urriði í Ljótapolli og Frostaðastaðvatni.  Upp úr 1970 var farið að sleppa bleikju í vötn á svæðinu og hefur henni fjölgað svo mjög að nú er í flestum vötnum friðlandsins aragrúi lítilla, ónýtanlegra silunga sem ekki ná að stækka vegna skorts á fæðu.

Árið 1981 var hafin skipulögð netaveiði í vötnunum til að minnka silungsstofnana þannig að þeir yrðu í meira samræmi við frumframleiðni vatnanna.

Fuglar

Fuglalíf er fáskrúðugt eins og víðar á hálendinu.  Sólskríkjur eru algengastar, en á vötnum sjást himbrimar, álftir og óðinshanar.

Himbrimi verpir við Frostastaðavatn og sést oft á Ljótapolli.  Álftir halda sig oft á Frostastaðavatni og Kirkjufellsvatni.  Straumönd sést stöku sinnum á Jökulgilskvísl, og vitað er til þess að hún hafi orpið á svæðinu.

Fornar nytjar

Sr. Jón Torfason, prestur á Stóruvöllum skrifar um Landmannaafrétt árið 181 í sóknarlýsingu sinni.  Hann minnist á gögn og gæði, sem í þessum auðnum og öræfum mátti fá fyrrum, svo sem fjallagrös, rót, silungs- og álftaveiði.  Má af orðum hans ráða, að á hans tíma séu hlunnindi þessi minna nýtt en áður hafði verið um aldir.  Hins vegar var svæðið þá, ein og nú afréttarland búfjár úr Holtum og Landi og smalað þegar 22 vikur voru af sumri eða um miðjan september.

Búfjárbeit og göngur

Fjallreiðir á Landmannaafrétt hafa löngum verið ævintýra- og svaðilfarir.  Náttúran gat verið ógnvænleg, þar sem á skiptust víðáttumiklir eyðisandar og brunahraun, og allra veðra von.  Við bættist hræðsla manna við hið óþekkta í auðnunum, huldufólk, tröll og útilegumenn.  Af ótta við útilegumenn leituðu fjallmenn ekki fjár í Jökulgili fyrr en eftir 1850.  Helstu áningarstaðir gangnamanna í friðlandinu eru Landmannahellir og Landmannalaugar.  Sagt er að í hellinn megi koma um 70 hestum, en smákofi sem hlaðinn var undir bergið í hellismunnanum rúmaði fjóra menn.  Ennig sváfu menn í tjöldum umhverfis hellinn, en 1907 var fyrsta sæluhúsið reist við Landmannahelli.

Löngum hafa Landmannalaugar verið eins konar helgistaður gangnamanna.  Þar var svo grösugt að nóg var fyrir 30 hesta í tvo til þrjá sólarhringa og laugakaffið, sem hellt var upp á beint úr heitri uppsprettu, þótti frábærlega gott og jafnvel margra meina bót.  Borghlaðni kofinn við lækinn í Laugum er talinn mjög gamall en þar geta dvalið þrír menn. 

Aðgengi

Hin forna Landmannaleið, (nú oft kölluð Fjallabaksvegur nyðri) liggur á milli Lands og Skaftártungu, í gegnum Friðland að Fjallabaki.

Fjölfarin leið inn á Landmannaleiðina er einnig úr norði, frá Sigöldu, og sameinast sá vegur meginleiðinni rétt norðan Frostastaðavatns.

Óvíða mun land viðkvæmara fyrir skemmdum vegna umferðar en hér og er því sérstaklega beint til ökumanna að kynna sér ástand vega áður en lagt er upp í ferð um friðlandið og aka alls ekki út fyrir þá vegi sem sýndir eru á korti.

Meðalárshiti í Friðlandi að Fjallabaki er líklega 0-1 °C. Júlí er hlýjasti mánuður ársins og er meðalhiti hans 7-8 °C. Meðalhiti köldustu mánaðanna, janúar og febrúar, er hins vegar um ÷ 6 °C. Rétt er að hafa hugfast að meðalhiti einstakra mánaða er ákaflega breytilegur frá ári til árs. Vetraraðstæður með frosti geta komið hvenær ársins sem er. Við Torfajölkul, í suðausturhorni friðlandsins, er ársúrkoma sennilega á bilinu 2 - 3 þús. mm en minnkar síðan ört til norðurs og norðvesturs og er líklega komin niður í um þúsund mm í nyrsta hluta firðlandsins.

Gönguleiðir

Innan friðlandsins má finna gönguleiðir við allra hæfi og eru nokkrar þeirra merktar inn á kort friðlandsbæklingsins. Göngumenn eru beðnir um að hafa eftirfarandi í huga.

Bergið er mjög laust í sér og allt klifur er hættulegt. Best er að fylgja fjallahryggjum eða gilbotnum. Mikið er um læki og ár. Sérstök aðgát skal höfð við hveri svo að ekki sé stigið ofan í heita leðju eða vatn. Jafnan ætti að krækja fyrir gróðurreiti, því að þeir eru oft votlendir og vaðast fljótt út.

Vegna vinds getur hitastig á hálendi breyst mikið á stuttum tíma og því alltaf ástæða til að hafa skjólgóðar flíkur til taks. Vinsælasta gönguleið svæðisins er Laugavegurinn, sem liggur frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Gista má í skálum í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn og í Botnum á Emstrum. Gera þarf ráðstafanir fyrirfram til að fá skálagistinu á leiðinni.

Skálar og tjaldsvæði

Tjaldsvæði innan Friðlandsins eru í Landmannalaugum, Landmannahelli og í Hrafntinnuskeri. Skálar Ferðafélags Íslands eru í Landmannalaugum og í Hrafntinnuskeri en Hellismenn eru með skála við Landmannahelli. Skálavarsla er í þeim öllum yfir sumartímann.

Umgengnisreglur:

 • Akið ekki utan merktra vega.
 • Eyðið ekki eða spillið gróðri.
 • Truflið ekki dýralíf.
 • Kveikið ekki elda.
 • Takið allt sorp með ykkur til byggða.
 • Hlaðið ekki vörður.
 • Letrið ekki á náttúrumyndanir.
 • Spillið ekki hverum og laugum.
 • Tjaldið ekki utan tjaldsvæða nema með leyfi landvarða.
 • Rjúfið ekki öræfakyrrð að óþörfu.

Svæði í hættu

Svæðið er á rauða listanum

Auglýsing nr. 354/1979 í Stjórnartíðindum B.

Styrkleikar

Aðdráttarafl Friðlands að Fjallabaki felst í fegurð óspilltrar náttúru og þeim víðernum sem þar er að finna. Á þessa auðlind hefur verið gengið hratt undanfarin ár og er mikilvægt að hægja á og grípa inn í þróunina áður en hún gengur til þurrðar. Stærð friðlandsins er 44.624 hektarar og er svæðið því víðfeðmt og vel til þess fallið að dreifa álagi. Svæðið hefur að geyma stórbrotið landslag og er vinsælt útivistarsvæði. Ráðgjafarnefnd fyrir friðlandið tók aftur til starfa árið 2012 og er tilgangur nefndarinnar að vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um umsjón friðlandsins. Að auki hefur Háskóli Íslands unnið þolmarkagreiningu fyrir Landmannalaugar, Hrafntinnusker og Landmannahelli að beiðni Umhverfisstofnunar. Sett hafa verið upp skilti til þess að varna utanvegaakstri. Umhverfisstofnun hefur bætt við heilsárslandvörslu fyrir Suðurland, með sérstakri áherslu á Friðland að Fjallabaki og hefur landvörður aðstöðu á Hellu. Landvarsla á svæðinu var aukin árin 2013 og 2014.

Veikleikar

Lífríki svæðisins er viðkvæmt og þar ríkir öræfaauðn og kyrrð. Samfelld gróðursvæði eru fá og endurheimt gróðurs sem spillist er hæg. Vaxtartími gróðurs er stuttur. Svæðið ver sig illa sjálft. Friðlandið er mikið sótt af ferðamönnum allan ársins hring og álag á svæðið er því ekki einvörðungu bundið við sumartímann. Fram kemur í þolmarkagreiningarskýrslu sem unnin var fyrir Umhverfisstofnun að áætlað sé að um 145 þúsund manns hafi farið um Stór Fjallabakssvæðið sumarið 2011. Þar af heimsóttu rúmlega 120 þúsund manns Landmannalaugar og gera má ráð fyrir að heimsóknum þangað hafi fjölgað síðan. Viðkvæmasta svæðið innan friðlandsins er að öllum líkindum Landmannalaugar og er það mest farið að láta á sjá. Jafnframt er fjöldi ferðamanna á svæðinu helsta umkvörtunarefni þeirra ferðamanna sem þangað koma. Gönguleiðin Laugavegur er einnig víða illa farin vegna mikils ágangs.

Ógnir

 • Mikið álag af völdum ferðamannastraums sem reynir á þolmörk friðlandsins og þeirra sem það heimsækja. 
 • Utanvegaakstur er þó nokkur, mestur á jaðartíma. Viðhaldi vega er ábótavant. 
 • Vegna þessa mikla fjölda sem kemur í Landmannalaugar hefur verið bætt við mannvirkjum á svæðinu og ekki alltaf gætt að útliti þeirra. Nauðsynlegt er að deiliskipulagi verði lokið fyrir Landmannalaugar. 
 • Aðstöðu vantar til að veita upplýsingar, stað þar sem landverðir taka á móti fólki og leiðbeina því um svæðið og stýra umferð.
 • Ljúka þarf við verndaráætlun fyrir svæðið.
 • Ljúka þarf við aðstöðu fyrir landverði á svæðinu.

Tækifæri

 • Vinna við verndaráætlun stendur yfir.
 • Ráðgjafanefnd er starfandi fyrir svæðið. 
 • Þolmarkagreining hefur verið unnin. 
 • Nýtt svæðisskipulag var samþykkt en deiliskipulag er í vinnslu. 
 • Létta þarf álagi af Laugaveginum. 
 • Aukin fræðsla og leiðbeiningar til allra þeirra sem fara um svæðið með það að markmiði að bæta umgengni og virðingu fyrir svæðinu.
 • Styrkja þarf landvörslu í friðlandinu.
 • Heilsárslandvörður hefur tekið til starfa. 
 • Setja þyrfti upp þurrsalerni á leiðinni milli Hrafntinnuskers og Landmannalauga. 
 • Betra viðhald vega ásamt betra viðhaldi og skýrari afmörkun gönguleiða.