Stök frétt

Haldið var upp á 10 ára afmæli Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls í gær að Hellnum á Snæfellsnesi og fór dagskráin fram í Hellnakirkju. Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður kynnti verkefnið ljóð í náttúru sem er einskonar ljóða-ratleikur innan þjóðgarðsins. Verið er að setja upp ljóðin og verður leikurinn fullbúinn innan skamms. Búið er að gefa út bækling sem er dreift ókeypis til áhugasamra. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra las upp fyrsta ljóðið og tilkynnti að hún hyggðist leggja til að fræðsluverkefni að Malarrifi fengi 10 milljón króna fjárveitingu á næsta ári. Skúli Alexanderson kynnti síðan Hollvini þjóðgarðsins og hvatti alla viðstadda til að ganga til liðs við þann góða félagsskap.  Síðan var gengið að gestastofu þar sem ljósmyndarinn Svavar Jónatansson kynnti ljósmyndaverk sem hann hafði unnið að innan þjóðgarðsins. Umhverfisráðherra setti síðan verkið í gang sem inniheldur samanskeyttar ljósmyndir úr þjóðgarðinum og er um 3 mín að lengd. Verkið verður sýnt í allt sumar.