Stök frétt

Höfundur myndar: © www.mats.is

Viðey í Þjórsá verður friðlýst á morgun, miðvikudaginn 24. ágúst að ósk landeigenda. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, mun undirrita friðlýsinguna í umhverfisráðuneytinu kl. 15. Eyjan er 3,37 ha að stærð og verður friðlýst sem friðland.

Viðey í Þjórsá er sérstök m.a. vegna þeirrar umgerðar sem straumþung áin veitir. Mikilvægi svæðisins felst einnig í möguleika á samanburði t.d. birkisins, sem þar hefur vaxið án teljandi áhrifa mannsins, við birki annarsstaðar í landinu. Í Viðey hafa fundist yfir 70 háplöntutegundir, þar af tvær tegundir sjaldgæfar á landsvísu.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda náttúrulegan, lítt snortinn og gróskumikinn birkiskóg ásamt því lífríki sem honum fylgir. Einnig er markmið friðlýsingarinnar að vernda erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs í eynni. Markmið friðlýsingarinnar er enn fremur að treysta verndargildi Viðeyjar í Þjórsá, sérstaklega vísinda- og fræðslugildi.

Með friðlýsingu Viðeyjar í Þjórsá er verið að styrkja líffræðilega fjölbreytni vistgerða og vistkerfa svæðisins með því að vernda tegundir plantna og annarra lífvera ásamt erfðaauðlindum sem tegundirnar búa yfir og búsvæði þeirra. Í friðlýsingarskilmálunum segir m.a. að ef af virkjunum verði í neðri Þjórsá muni Umhverfisstofnun sjá til þess að friðlandið verði girt af til að vernda lífríki svæðisins fyrir mönnum og dýrum.