Stök frétt

Fréttatilkynning

Lyfjastofnun og Umhverfisstofnun, matvælasvið, hafa fengið upplýsingar í gegnum viðvörunarkerfið RASFF (Rapid Alert System for Food and Feed) um sölu á netinu á fitubrennsluhylkjum, sem innihalda hættulegt efni (2,4-dinitrophenol (DNP)). Hylkin eru einkum ætluð þeim sem stunda líkamsrækt til þess að auka fitubrennslu.

Efnið DNP er lífshættulegt, þar sem það hefur áhrif á orkuframleiðslu í frumum líkamans. DNP er ekki skilgreint sem lyf, en er á lista yfir eiturefni og hættuleg efni, sbr. rg. 236/1990, fylgiskjal 1, og er stundum notað sem skordýraeitur.

Vitað er um finnskan einstakling, sem lagður var inn á gjörgæsludeild eftir að hafa tekið inn hylki með DNP. Hylkin höfðu verið pöntuð á netinu frá www.ironbrand.co.uk . Samkvæmt upplýsingum á netinu innihéldu hylkin 200 mg af DNP. Finnsk yfirvöld hafa nú sent út viðvörun til annarra Evrópu landa, í gegnum RASFF, þar sem varað er við hylkjunum auk þess sem bresk yfirvöld hafa brugðist við með íhlutandi aðgerðum.

Lyfjastofnun og Umhverfisstofnun, matvælasvið, ráðleggja því neytendum að neyta ekki vara sem innihalda DNP, þar sem efnið er ekki ætlað til manneldis. Ekki er vitað til þess að matvæli eða aðrar neysluvörur sem innihalda DNP séu flutt inn né seldar hér á landi. Lyfjastofnun og Umhverfisstofnun, matvælasvið, vilja hvetja neytendur til þess að vera á varðbergi gagnvart vörum, sem seldar eru á netinu eða í póstverslun, einkum ef innihaldslýsingar eða notendafyrirmæli eru villandi.