Stök frétt

Gljúfrastofa, gestastofa og upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum verður opnuð á sumardaginn fyrsta, 19. apríl, n.k kl. 14:30. Í Gljúfrastofu sem er um 550 fm að flatarmáli verður aðal gestamóttaka þjóðgarðsins, upplýsingagjöf og sýning um náttúru og sögu svæðisins. Að auki mun Gljúfrastofa hýsa skrifstofur starfsmanna og gert er ráð fyrir aðstöðu til að taka á móti skólahópum í þjóðgarðinn.

Í sýningunni sem er mjög glæsileg og myndræn verður lögð áhersla á Jökulsá á Fjöllum og þátt hennar í mótun lands og lífs. Framsetning sýningarinnar er með þeim hætti að gestir fræðast um hið fallega svæði þjóðgarðsins með áþreifanlegum hætti, þar sem gagnvirkri myndmiðlun er beitt til upplýsingar og fræðslu.

Undirbúningur að Gjljúfrastofu hófst 2003 og hönnun húss og sýningar fór fljótlega í gang í framhaldi af því en bygging hússins hófst 2005.

Hönnun sýningarinnar hefur verið í höndun Bility ehf, Guðrúnar Lilju Gunnlaugsdóttur og Jóns Ásgeirs Hreinssonar.

Gljúfrastofa mun gjörbreyta starfsaðstöðu þjóðgarðsins, bæta þjónustu við gesti og efla fræðslu um svæið.