Stök frétt

Málefni erfðabreyttra lífvera eru umdeild hérlendis sem erlendis. Á Íslandi er ræktun erfðabreyttra lífvera heimil samkvæmt lögum, bæði inniræktun og útiræktun, að uppfylltum skilyrðum og háð eftirliti. Umhverfisstofnun hefur umsjón með að skilyrði séu uppfyllt og hefur eftirlit með starfseminni. Á undanförnum árum hefur Umhverfisstofnun hert verulega þær kröfur sem gerðar eru til ræktunar og aukið samráð umfram það sem gert er ráð fyrir í lögum og reglum. Stofnunin telur að alltaf megi gera betur og fagnar öllum ábendingum sem kunna að leiða til þess að gæta megi betur hagsmuna umhverfis og almennings. 

Nýlega sendi bæjarráð Hveragerðis frá  sér ályktun um útgáfu leyfis til ræktunar á erfðabreyttu byggi í gróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi. Í því sambandi er rétt að geta þess að þar hefur erfðabreytt bygg verið ræktað frá árinu 2003 og núgildandi leyfi er endurnýjun á leyfi sem rann út árið 2008. Haft er samráð við viðkomandi sveitarfélag sem í þessu tilfelli er Ölfus. Einnig er leitað umsagnar viðkomandi heilbrigðisnefndar, í þessu tilviki Suðurlands en í henni sitja fulltrúar sveitarfélaga á svæðinu. Farið var að lögum og reglum í þessum efnum. 

Reglur um kynningu og samráð hérlendis eru til jafns og í sumum tilvikum umfangsmeiri en þekkist erlendis. Alþingi gerði nýlega breytingar á reglum um kynningu og samráð í tengslum við leyfisveitingar samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur, sem stofnunin vinnur eftir. Umhverfisstofnun reynir sífellt að bæta samráð og miðlun upplýsinga til almennings og hagsmunaaðila. Einnig hefur stofnunin það á ársáætlun sinni fyrir árið 2012 að auka upplýsingamiðlun um málefni erfðabreyttra lífvera á vefsvæði sínu. 

Þá vill stofnunin einnig greina frá aðgerðum sínum í kjölfar þess að gat kom á gróðurhús Barra á austurlandi hvar ræktað er erfðabreytt bygg. Umhverfisstofnun sendi eftirlitsmenn á staðinn til þess að kanna aðstæður og meta þörf á úrbótum. Rétt er að geta þess að starfsleyfinu fylgir viðbragðsáætlun sem vinna skal í samræmi við þegar upp koma aðstæður sem þessar og var það gert. Samkvæmt reglugerð er farið yfir húsakost í umsóknarferlinu og mat lagt á aðstæður og húsnæði við veitingu leyfisins. Húsnæði Barra var samþykkt á þeim forsendum að það þyldi 43 m/s og að reistar væru vindmanir til þess að verjast ríkjandi vindáttum. Þær ráðstafanir dugðu ekki til í því aftakaveðri sem gekk yfir landið. Í því ljósi mun Umhverfisstofnun taka til skoðunar vindþol viðeigandi gróðurhúsa í samráði við Veðurstofuna og í kjölfarið gera viðeigandi ráðstafanir. 

Að gefnu tilefni vill Umhverfisstofnun koma því á framfæri að stofnunin telur, miðað við atvik málsins, ekki í samræmi við lög að svipta ORF líftækni starfsleyfinu vegna þessa.