Stök frétt

Á dögunum var gefin út skýrsla á vegum Ferðamálastofu er nefnist Könnun meðal erlendra ferðamanna sumarið 2011. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um erlenda ferðamenn sem koma til Íslands, aðdraganda að Íslandsferðinni, upplifun og viðhorfum þeirra til ýmissa þátta. Fram kemur í skýrslunni að flestir svarenda eða um 61,7% nefndu náttúruna og landið þegar spurt var hvaðan hugmynd að Íslandsferð þeirra kom og 79,7% sögðu náttúruna og landið hafa haft áhrif á ákvörðunina.

Þegar spurt var hvaða staði viðkomandi ferðamaður hafði heimsótt, þá voru 12 vinsælustu staðirnir: 

  1. Þingvellir/Geysir/Gullfoss
  2. Vík/Dyrhólaey 
  3. Skaftafell 
  4. Skógar 
  5. Akureyri 
  6. Mývatn 
  7. Húsavík 
  8. Snæfellsnes/Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull 
  9. Ásbyrgi/Dettifoss
  10. Egilsstaðir/Hallormsstaður 
  11. Borgarfjörður
  12. Landmannalaugar

Margir þeirra staða sem ferðamenn nefna eru friðlýst svæði í umsjón Umhverfisstofnunar. Umsagnir þeirra sem þátt tóku í könnuninni um einstök atriði sem tengjast ferðamannastöðum gefa því mikilvægar vísbendingar um hvernig miðar  í þeim málum sem snúa að gestum friðlýstra svæða. Þau atriði sem spurt var um í tengslum við svæðin eru m.a.:

  • upplýsingar og merkingar
  • aðgengi
  • hreinlætisaðstaða 
  • öryggismál 
  • umgengni gesta
  • upplýsingagjöf á upplýsingamiðstöðvum

Athygli vekur að yfir 75% ferðamannanna sem spurðir voru gáfu þessum atriðum einkunnina á bilinu 8-10. Einnig var spurt um almennt ástand á ferðamannastöðum og gáfu tæplega 85% ferðamanna einkunnina á bilinu 8-10. Í Ferðaþjónustureikningum 2009-2011 frá Hagstofu Íslands kemur fram að heildarferðaneysla innanlands árið 2009 var rúmlega 184 milljarðar eða sem svarar 12,3% af vergri landsframleiðslu og fer sú tala hækkandi. Umhverfisstofnun vill í því samhengi draga enn frekar fram þau verðmæti sem liggja í íslenskri náttúru og mikilvægi þess að viðhalda náttúru þessara vinsælu ferðamannastaða sem jafnframt eru friðaðir. Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir skemmdir vegna ágangs ferðamanna t.a.m. með uppbyggingu innviða til verndar og viðhalds.

Könnunina í heild sinni má sjá á vef Ferðamálastofu.