Stök frétt

Umhverfisstofnun óskar landsmönnum til hamingju með dag vatnsins sem er í dag 22. mars. Sameinuðu þjóðirnar halda árlega upp á þennan dag og nota gjarnan daginn til að minna á málefni sem brenna á þjóðum heims og snerta vatn og vatnsnotkun. Í ár er athyglinni beint að vatni og fæðuöryggi. Íslendingar eiga mikið af góðu neysluvatni og lætur nærri að 98% þjóðarinnar hafi aðgang að hreinu og ómenguðu grunnvatni til neyslu. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Umhverfisstofnun á síðasta ári kemur fram að Íslendingar eigi 532 þúsund rúmmetra af ferskvatni á hvern íbúa en Danir aftur á móti eiga aðeins 3 þúsund rúmmetra á mann af ferskvatni. Ef litið er lengra má einnig benda á að í Afríku hafa sumar þjóðirnar einungis 7-15 rúmmetra á mann. Við Íslendingar notum líka þjóða mest af vatni á hvern íbúa eða að meðaltali um 269 rúmmetra á hvern íbúa á ári. Þessi staðreynd endurspeglast meðal annars í því að sundlaugar eru í næstu hverjum þéttbýlisstað á landinu og gríðarlega miklar vatnsauðlindir til orkuvinnslu. Það er hverjum manni hollt að hugsa til þeirra sem skortir hreint vatn eða nægt vatn til daglegra nota um leið og við þökkum fyrir þá auðlind sem landið býr yfir. Það er jafnframt siðferðileg skylda Íslendinga að fara vel með þessa miklu auðlind.

Á síðasta ári gengu í gildi ný lög um stjórn vatnamála. Markmið laganna er að tryggja vernd og viðgang þessarar stóru og verðmætu auðlindar. Umhverfisstofnun heldur utan um framkvæmd laganna en mikið er lagt upp úr opnu og almennu samstarfi, upplýsingagjöf og þátttöku almennings.

Tengt efni