Stök frétt

Megin inntak innkaupastefnu ríkisins er það sem kallað hefur verið bestu kaup. Það þýðir að ætíð skal vinna að því að besta mögulega niðurstaða fáist að teknu tilliti til heildarkostnaðar og ávinnings. Við mat á bestu kaupum skal jafnframt tekið tillit til umhverfissjónarmiða þannig að ef vara eða þjónusta er sambærileg að öðru leyti ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu. 

Vistvæn innkaup fara eftir eðli og umfangi hverrar stofnunar fyrir sig og því hafa fjármála- og umhverfisráðuneytin farið þá leið við innleiðingu vistvænna innkaupa að halda vinnustofur um leiðir og þau verkfæri sem stofnunum standa til boða s.s. innkaupagreiningu, rammasamninga og grænt bókhald.

Innkaup snúast um val, val á vöru og þjónustu, val á birgjum og þjónustuaðilum og val um aukin eða minnkuð útgjöld. Það er því markmið vinnustofanna að starfsfólk stofnanna átti sig á mikilvægi þess að velja og afleiðingum þessa vals. Áhersla er lögð á létt og skemmtilegt yfirbragð á vinnustofunum og hvatt til þess að samskipti séu gagnkvæm þannig að við lærum sem mest hvert af öðru.

Vonast er til að með virkri þátttöku allra stofnana munum við stuðla að auknum sparnaði í hagkerfinu jafnt sem vistkerfinu.

Vinnustofurnar verða í gangi eftir páska og fram á vor. Nú þegar hafa verið haldnar velheppnaðar vinnustofur með fjármálaráðuneytinu og undirstofnunum þess og með efnahags- og viðskiptaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti og þeirra undirstofnunum. Hlé verður gert í sumar og haldið áfram næsta haust.