Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur samþykkt nýja jafnréttisstefnu sem hefur tekið gildi. Tekið er á helstu þáttum er snúa að jafnrétti kynjanna, s.s. launum, aðbúnaði, samræmingu vinnu og einkalífs og tækifærum til endurmenntunar svo eitthvað sé nefnt. „Starfskjör skulu ákveðin á sama hátt fyrir sömu störf og þau viðmið sem lögð eru til grundvallar ákvörðun um starfskjör skulu ekki fela í sér kynjamismunun. Skal í þessu augnamiði notast við kynhlutlaus viðmið um frammistöðu í starfi."

Þá er sérstaklega fjallað um samskipti kynjanna þar sem segir m.a.:  „Í samskiptum sín á milli skulu starfsmenn gæta þess í hvívetna að stuðla ekki að viðgangi staðlaðra kynímynda. Þess skal sérstaklega gætt að ekki séu sendir tölvupóstar sem stuðla að eða ýta undir staðlaðar kynjaímyndir."

Einnig er litið til þess að við alla stefnumótun sé þess gætt að sjónarmið beggja kynja komi fram og eigi aðkomu að slíkri vinnu. Stofnunin hefur sett sér tímasett markmið í að kanna stöðu þessara mála og bæta úr sé þess þörf.

Lesa má jafnréttisstefnuna og aðrar stefnur stofnunarinnar hér á vefnum.