Stök frétt

Árið 2004 féll olíutankur í Mývatn í tengslum við starfsemi Kísilverksmiðjunnar sem þá var starfrækt við vatnið. Olíutankurinn var notaður til þess að fylla á pramma úti á vatninu. Tankurinn féll í vatnið þegar verið var að flytja hann í land eftir að fyllt var á prammann og var því lítil olía í tanknum. Gerð var ítarleg leit að tanknum með aðstoð kafara, málmleitartækjum, vatnið var slægt og einnig leitað úr lofti. Á svæðinu þar sem talið er að tankurinn sé er 2-8 metra dýpi og vatnið gruggugt.

Umhverfisstofnun vann verndaráætlun fyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár í fyrra. Í henni segir að mikilvægt sé að finna umræddan olíutank sem sökk í Ytriflóa árið 2004 þar sem lífríkinu gæti stafað ógn af innihaldi hans. Ef tankurinn finnst ekki verður gerð viðbragðsáætlun um aðgerðir ef hann fer að leka. Málið sýnir fram á mikilvægi þess að gerðar séu verndaráætlanir fyrir öll friðlýst svæði á Íslandi þar sem farið er ítarlega yfir verndargildi svæða og þeirri hættu sem kunn að steðja að viðkomandi svæðum. Umhverfisstofnun hóf skipulagða vinnslu verndaráætlana friðlýstra svæða árið 2009 og hefur lokið við gerð þriggja verndaráætlana og er unnið nú að gerð fimm verndaráætlana. Fylgjast má með vinnslu þeirra hér á vefnum.