Stök frétt

Í dag, 20. júní, var opnað skráningarkerfi losunarheimilda fyrir allt EES svæðið. Kerfið er rekið miðlægt af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en Umhverfisstofnun heldur utan um og hefur umsjón og eftirlit með kerfinu hér á landi.

Opnun skráningarkerfisins bindur endahnút á undirbúningsvinnu sem Umhverfisstofnun hefur unnið að síðustu misseri við uppsetningu viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS). Umhverfisstofnun hefur nú þegar stofnað reikninga og úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum til flugrekstraraðila. Á næsta ári verður úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum til staðbundinna rekstraraðila (iðnaðarfyrirtæki) sem heyra undir ETS tilskipunina.

Skráningarkerfinu má að mörgu leyti líkja við netbanka þar sem fyrirtæki geta haldið utan um úthlutaðar losunarheimildir, keypt eða selt heimildir og gert upp vegna losunar.

Losunarheimildum sem úthlutað er endurgjaldslaust til íslenskra fyrirtækja munu að stærstum hluta duga fyrir raunlosun þeirra. Ef tekið er mið af verði losunarheimilda í dag sem og raunlosun hleypur verðmæti þeirra heimilda sem gera þarf upp árlega við Umhverfisstofnun á tæplega 2,5 milljörðum króna. Eins og áður segir þá er stærstum hluta heimildanna úthlutað endurgjaldslaust og því mun kostnaður fyrirtækjanna við kaup á heimildum aðeins vera hluti af ofangreindri upphæð. Endanlegur kostnaður fyrirtækja liggur þó ekki fyrir fyrr en þau fyrst gera upp losun sem er árið 2013 fyrir flugfélög og 2014 fyrir iðnfyrirtækin.

Einkaaðilar og aðrir en þeir sem falla undir ETS tilskipunina geta átt reikning í skráningarkerfinu og þar með keypt og selt heimildir. Ýmsar ástæður geta legið þar að baki s.s. spákaupmennska og umhverfisvernd. Verðið á heimildum hefur verið mjög breytilegt og ýmsir hafa séð tækifæri á að fjárfesta í heimildum í gróðaskyni. Af umhverfisástæðum hafa aðilar verið að kaupa heimildir til þess að láta eyða þeim úr kerfinu og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda innan Evrópu. Hliðaráhrif kaupa af þessum toga geta einnig verið þau að framboð heimilda dregst saman sem í kjölfarið þrýstir verðinu upp.

Frekari upplýsingar um skráningarkerfið og viðskiptakerfið í heild sinni.