Stök frétt

Framkvæmdaáætlun Íslands um varnir gegn mengun sjávar frá landi (frá 2001) hefur verið tilnefnd til verðlauna á vegum samtakanna World Future Council fyrir stefnumörkun um vernd hafs og stranda.

Árið 1995 samþykktu í Washington 114 þjóðir alþjóðlega framkvæmdaáætlun um að draga úr mengun sjávar frá landstöðvum. Samþykktin markaði tímamót í baráttunni gegn mengun hafsins enda eiga um 80% af henni uppruna sinn á landi.

Í framhaldi af samþykktinni fól umhverfisráðuneytið Hollustuvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun)  að vinna að gerð slíkrar framkvæmdaáætlunar fyrir Ísland. Niðurstaða þeirrar vinnu var síðan lögð fyrir ríkisstjórn og staðfest af henni sem stefnumótun til verndar umhverfis hafsins og var gefin út bæði á íslensku og ensku árið 2001. Stefnumótunin vakti allnokkra athygli víða um heim og var verkefnið kynnt á allnokkrum alþjóðlegum fundum  í Evrópu, Kanada og í Ástralíu.

Árið 2006 gaf umhverfisráðuneytið út skýrslu um stöðu framkvæmdaáætlunarinnar

Framkvæmaáætlun Íslands um varnir gegn mengun sjávar frá landi (frá 2001) hefur nú verið tilnefnd til svokallaðra Framtíðarstefnuverðlauna samtakanna World Future Council sem bestu stefnumörkunar fyrir haf og strendur (world’s best policies for oceans and coasts). Til verðlaunanna er stofnað í samstarfi við nokkrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í september nk.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu World Future Council