Stök frétt

Grand Hótel Reykjavík er stærsta Svansvottaða hótel landsins en þar er unnið af krafti við að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi hótels og veitingastaðar á ábyrgan hátt. Sem Svansvottað hótel þarf Grand Hótel Reykjavík að fylgja mjög ströngum reglum um notkun á vatni, orku, hreinlætisvörum og mörgu fleiru. Í vottunarferlinu sáu starfsmenn hótelsins að víða voru möguleikar til að betrumbæta starfsemina og tók hótelið stórstígum framförum í sínum umhverfismálum. Til dæmis má nefna að áður fyrr var notað um eitt tonn af klór í þvottahúsi hótelsins á ári en því hefur nú verið hætt og einungis notast við vottuð þvottaefni.

Grand Hótel Reykjavík lætur þó ekki þar við sitja heldur hefur nú hlotið vottun frá Tún, viðurkenndum íslenskum vottunaraðila, fyrir hluta af sínu daglega morgunverðarhlaðborði. Þetta er fyrsta lífræna vottunin af þessu tagi sem veitt hefur verið á Íslandi. Með þessari vottun er komið til móts við þann aukna fjölda ferðamanna sem gerir kröfu um að boðið sé upp á breitt úrval af lífrænum matvælum.

Lífrænar vörur eru framleiddar með sjálfbærum aðferðum og án eiturefna, hormóna og erfðabreyttra efna og reynt er að varðveita sem best ferskleika þeirra og hreinleika allt til neytandans. Varan fæst ekki vottuð lífræn nema fylgt sé reglum um lífræna ræktun á öllum stigum framleiðslunnar og framleiðslan er öll undir reglulegu eftirliti viðurkenndrar stofnana sem ganga úr skugga um að farið sé að settum reglum.

Svanurinn óskar Grand Hótel Reykjavík hjartanlega til hamingju með glæsilegan áfanga og aðdáunarvert frumkvöðlastarf í umhverfismálum.

 

Stjórnarformaður Grand Hótel Reykjavík, Ólafur D. Torfason, fær afhent vottorðið frá Guðrúnu Hallgrímsdóttur,

matvælaverkfræðingi og fyrrum stjórnarformann Túns.