Stök frétt

Þann 16. september 2012 verða liðin 25 ár frá gildistöku Montreal bókunarinnar um viðskipti með ósoneyðandi efni. Ástæða þykir til að minnast sérstaklega þessara tímamóta í ljósi afrakstursins sem komið hefur allri heimsbyggðinni til góða. Montreal bókunin hefur leitt til þess að notkun ósoneyðandi efna hefur nánast lagst af á vesturlöndum og á heimsvísu hefur hún dregist saman um 98%. Þá heyrir notkun efnanna með mesta ósoneyðingarmáttinn að miklu leyti sögunni til. Samstaðan meðal þjóða heims við að draga úr notkun ósoneyðandi efna hefur gert það að verkum að litið er á Montreal bókunina sem fyrirmynd þegar kemur að alþjóðlegum samningum á sviði umhverfismála. 90% alls ósons í andrúmsloftinu er að finna í heiðhvolfinu sem er í 16 til 50 km hæð yfir jörðu. Þar mynda ósonsameindir það sem í daglegu tali kallast ósonlagið en það gleypir megnið af útfjólublárri geislun sólarinnar og verndar með því jörðina og allt líf á henni.

Umræðan um alþjóðlegar aðgerðir til varnar ósonlaginu hófst undir lok 8. áratugarins þegar vísindamenn höfðu sýnt fram á að klórflúorkolefni, öðru nafni freon, stuðluðu að sundrun ósonsameinda í heiðhvolfinu. Klórflúorkolefni auk fleiri svipaðara efna voru þá orðin afar algeng í iðnaði og neytendavörum á borð við ísskápa, úðabrúsa, slökkvitæki og svo mörgum öðrum sem við getum illa verið án. Um miðjan 9. áratuginn var útlitið orðið dökkt og ljóst að meiriháttar átaks væri þörf á heimsvísu til að stöðva notkun þessara efna. Þegar ljóst var að ósonlagið héldi áfram að þynnast og lífið á jörðinni yrði berskjaldaðra fyrir skaðlegum áhrifum útfjólublárrar geislunar sólar var loks hægt að komast að samkomulagi um að snúa bæri þessari þróun við. 

Þann 16. september 1987 var undirrituð í Montreal bókun við Vínarsamninginn um verndun ósonlagsins þar sem ákveðnar voru reglur um hvernig draga skyldi úr notkun ósoneyðandi efna. Ísland er einn af 24 stofnaðilum þessa samkomulags og hefur allt til þessa dags verið framarlega í flokki þeirra þjóða sem harðast hafa gengið fram í að hætta notkun ósoneyðandi efna. Í dag eru öll 197 ríki heims aðilar að bókuninni sem er einsdæmi. Þróunin síðan hefur orðið sú að styrkur ósons í heiðhvolfinu hefur farið upp á við eftir að hafa náð lágmarki í kringum aldamótin. Með sama áframhaldi er talið að það verði búið að ná sama styrk og fyrir 1980 eftir miðja öldina. Því má þakka hve vel gekk að draga úr notkun efnanna með mesta ósoneyðingarmáttinn. Í þeirra stað komu fyrst um sinn efni með lægri ósoneyðingarmátt en núna er búið að þróa aðferðir sem koma nær alfarið í stað þeirra sem stuðla að losun ósoneyðandi efna út í andrúmsloftið. Á Íslandi hefur náðst mikill árangur í að draga úr notkun ósoneyðandi efna. Notkunin í dag er bundin við gömul kælikerfi í skipum en reiknað er með að sú notkun hætti innan nokkurra ára nú þegar viðskipti með ósoneyðandi efni eru bundin við endurnotuð efni. Á síðasta ári urðu þau tímamót að enginn skráður innflutningur var á ósoneyðandi efnum til landsins. Talið er að með aðgerðum síðustu 25 ára hafi milljónum mannslífa verið bjargað sem annars hefðu látið lífið af völdum sjúkdóma á borð við húðkrabbamein. Ljóst er að áhrifin á umhverfið eru ekki síður afgerandi eins og á gróðurfar og til að koma í veg fyrir enn frekari hlýnun jarðar.

Margar hindranir hafa verið í veginum fyrir því að draga úr notkun ósoneyðandi efna. Það gekk ekki þrautalaust að finna hentug staðgengilsefni og þeirri þróun er alls ekki lokið. Þá fylgir því mikill kostnaður að skipta út einu efni sem reynst hefur vel yfir í annað sem lítil reynsla er komin á og er þar að auki dýrari kostur. Enn er mikið verk óunnið til að áætlanir standist eins og að aðstoða þróunarríki við að hætta alfarið notkun ósoneyðandi efna og koma í veg fyrir ólöglega verslun með efnin sem getur grafið undan þeim árangri sem áunnist hefur með mikilli fyrirhöfn.