Stök frétt

Í ljósi þess að mælingar á grasi í Reyðarfirði sýndu aukningu á styrk flúors hafa vaknað spurningar um tilhögun og umfang vöktunar. Meðfylgjandi samantekt er hugsuð til að svara einhverjum af þeim spurningum sem Umhverfisstofnun telur líklegt að komi fram. Ef svar við spurningu þinni er ekki að finna þarna er um að gera að senda stofnuninni hana og verður leitast við að svara því fljótt og vel.

Í starfsleyfum stóriðju eru ákvæði um umhverfisvöktun þar sem fylgjast skal með áhrifum starsfeminnar á umhverfið. Þessi vöktun getur verið ansi yfirgripsmikil og fer eftir aðstæðum á hverjum stað. Hvað skuli vaktað og hvernig er síðan tilgreint í sérstakri vöktunaráætlun sem Umhverfisstofnun samþykkir. Rekstraraðilar gera síðan samninga við utanaðkomandi sérfræðinga, rannsóknastofnanir og ráðgjafa um framkvæmd vöktunarinnar. Niðurstöður vöktunar eru síðan birtar opinberlega og farið er yfir þær á Umhverfisstofnun sem metur hvort ástæða sé til aðgerða eða viðbótarrannsókna.

Vöktun umhverfis álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði fer nú fram í samræmi við vöktunaráætlun frá 2011. Meðal þess sem þar er tilgreint eru mælingar á flúor og öðrum efnum í gróðri:

  1. Sýnum af mosa, fléttum og háplöntum (bláberjalauf og bláberjum) er safnað í lok vaxtartíma á tilgreindum 30 reitum og flúor í þeim mældur árlega og niðurstöður bornar saman við fyrri mælingar.
  2. Rabarbara og kartöflum er safnað á 10 stöðum og flúor mældur í þeim. Þungmálmar hafa verið mældir árlega. Kartöflum er safnað einu sinni á ári í lok vaxtartíma gróðurs en rabarbara er safnað hálfsmánaðarlega frá júní til ágúst.
  3. Barrnálum og laufum af reynitrjám er safnað einu sinni á ári við lok vaxtartíma af 20 stöðum og magn flúors mælt í þeim.
  4. Grasi er safnað hálfsmánaðarlega frá júní til ágúst af 30 stöðum og flúor mældur í sýnunum. Heysýnum er safnað af þrem stöðum einu sinni á ári í Reyðarfirði og greint með tilliti til flúors.

Lítið er um sauðfjárbúskap á svæðinu og helstu beitarsvæði eru allnokkuð utan við þyningarsvæði álversins og því hefur ekki verið kerfisbundið fylgst með ástandi sauðfjár eins og t.d. er gert umhverfis Grundartanga. Áður en álverið tók til starfa voru könnuð bakgrunnsgildi flúors og kveðið á um að ef mælingar á styrk flúors í grasi utan þynningarsvæðis færu yfir 40 µg F /mg eða vísbendingar kæmu fram um áhrif yrðu mælingar teknar upp. Áherslan hefur því verið lögð á að fylgjast með styrk í grasi (fóðri).

Náttúrustofa Austurlands hefur haft umsjón með sýnatöku og mælingum á framangreindum þáttum f.h. rekstraraðila.

Skýrsla um umhverfisvöktun fyrir árið 2011 er að finna hér á vefnum á sérstakri síðu með upplýsingum um eftirlit með Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði. Þar er að finna eftirlitsskýrslur, mælingar og fleiri upplýsingar sem snúa að eftirlitinu. Sambærilegar síður eru fyrir alla starfsleyfishafa hjá Umhverfisstofnun.

Þá má einnig sjá niðurstöður umhverfisvöktunar í Reyðarfirði á sjalfbaerni.is.

Í kjölfar á niðurstöðum sem komu úr mælingum frá því síðasta sumar hefur verið ákveðið að tekin verði sýni af heyi í firðinum og greindur styrkur flúors. Þá verður safnað saman hausum af sláturfé, bæði fullorðnu og lömbum, ástand tanna skoðað og mældur styrkur flúors í beinum. Sýnataka fer fram í október og er gert ráð fyrir því að niðurstöður berist fyrir 1. desember. Einnig hefur Umhverfisstofnun farið fram á að Alcoa Fjarðaál taki saman greinargerð og mat á orsökum þess að þessi staða er komin upp, og tillögu að áætlun um frekari aðgerðir til að koma í veg fyrir að slíkt hendi aftur, og afleiðingar þessa ástands og sendi til Umhverfisstofnunar eigi síðar en 15. nóvember.