Stök frétt

Við mælingar á efnainnihaldi flugelda á vegum yfirvalda í nokkrum Evrópuríkjum kom í ljós að hluti þeirra innihaldi þrávirka efnið hexaklórbensen (HCB) sem hefur um langt skeið verið bannað vegna þeirra alvarlegu áhrifa sem það hefur á umhverfið og heilsu manna. Nú hafa slíkar mælingar verið framkvæmdar fyrir Umhverfisstofnun þar sem í ljós kom að efnið er ekki að finna í verulegum mæli í flugeldum og skotkökum sem voru á markaði hér fyrir síðustu áramót.

Þrávirk efni hafa verið að safnast upp á jörðinni undanfarna áratugi. Skaðsemi þeirra er slík að lífverum ofarlega í fæðukeðjunni stafar mikil hætta af vaxandi styrk þessara efna í umhverfinu og sums staðar hefur orðið að gefa ráðleggingar um að draga úr neyslu á sjávarfangi af þeim sökum, sérstaklega ófrískum konum. Fyrir Íslendinga eru mikilvægir hagsmunir fólgnir í að koma í veg fyrir mengun hafsins og að viðhalda ímynd landsins sem ómenguðu.

HCB er þrávirkt efni sem safnast upp í umhverfinu og í lífverum. Það brotnar niður á afar löngum tíma og getur í millitíðinni borist langar leiðir í lofti, vötnum eða sjó og hefur efnið mælst í umhverfinu fjarri mögulegum uppsprettum. Það er talið geta valdið alvarlegum heilsuskaða eins og krabbameini og skaðað starfsemi lifrar og nýrna svo eitthvað sé nefnt.

HCB var áður fyrr notað sem varnarefni og í efnaiðnaði en nánast öll notkun þess, sem hefur í för með sér losun út í umhverfið, hefur nú verið bönnuð með alþjóðlegum aðgerðum á borð við Stokkhólmssamning um bann við framleiðslu, notkun og losun þrávirkra lífrænna efna. Í dag berst HCB í litlum mæli út í umhverfið og þá einna helst frá iðnaði og sorpbrennslum en einnig við notkun varnarefna sem geta innihaldið HCB sem snefilefni.

Um notkun HCB gildir reglugerð nr. 103/2009 um þrávirk lífræn efni en þar segir í 3. grein (í fylgiskjali):

Banna skal framleiðslu, setningu á markað og notkun á efnum sem eru skráð í I. viðauka, hvort sem þau eru ein sér, í efnablöndu eða innihaldsefni í hlut.“

4. grein hefur að geyma undanþágur frá þessu banni:

[?]efni sem koma fyrir sem óviljandi snefilaðskotaefni í efnum, efnablöndum eða hlutum.“

Mælingar hér við landi hafa leitt í ljós að minna er um umhverfisskaðleg efni en í löndunum í kringum okkur. Ástæðan er vitaskuld sú hve lítið er um mengandi starfsemi hér og fjarlægð frá mengunaruppsprettum. Hins vegar eru efni sem geta borist langar leiðir frá uppsprettu með vindum og hafsstraumum og mælast því í litlu minna magni hér en annars staðar. Mælingar á styrk HCB í lífríki hér við land gefa til kynna að hann sé svipaður og á Norðurlöndunum. Það verður ekki eingöngu skýrt með mengun sem berst langar leiðir heldur má álykta sem svo að innlend uppspretta sé til staðar á HCB sem hugsast gæti að væru flugeldar.

Mælingar í andrúmslofti gáfu afgerandi niðurstöðu um að HCB sé til staðar í andrúmslofti á nýársnótt. Til samanburðar er það 900 sinnum meira en mælist á Stórhöfða og u.þ.b. einni stærðargráðu yfir það sem mældist á 8. áratugnum í Bandaríkjunum á meðan að enn var verið að nota efnið í landbúnaði og iðnaði.

Það er á ábyrgð innflytjenda að tryggja að flugeldar innihaldi ekki efni sem eru bönnuð. Innflytjendur hafa verið upplýstir um hvernig megi ganga úr skugga um að bönnuð efni sé ekki að finna í flugeldum.

Umhverfisstofnun tók þátt í samevrópsku verkefni um efnagreiningar á HCB í flugeldum og skotkökum frá níu íslenskum innflytjendum. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að í tveimur tilfellum af níu mældist HCB yfir viðmiðunarmörkum sem eru 50 mg/kg.

Mörg önnur heilsuskaðleg efni geta verið í flugeldum eða sem geta myndast eftir að kveikt er í þeim. Það geta verið þungmálmar á borð við baríum, strontíum, kopar og fleiri og stundum hafa mælst kvikasilfur, blý og króm sem reynt er að sporna gegn. Við sprengingu geta svo myndast heilsuskaðleg efni á borð við díoxín.