Stök frétt

Umhverfisstofnun vill í kjölfar frétta um skemmdir á hverastrýtum í Eyjafirði minna á eftirfarandi reglur er gilda fyrir náttúruvættið:

  • Allar veiðar eru bannaðar innan marka náttúruvættisins.
  • Óheimilt er að hrófla við jarðmyndunum eða öðrum náttúruminjum á og við strýturnar og innan náttúruvættisins.
  • Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á svæðinu eru óheimilar nema til komi leyfi Umhverfisstofnunar og sveitarstjórnar Hörgárbyggðar. Öll efnistaka í nágrenni við strýturnar og innan marka náttúruvættisins er óheimil. Hvers konar eldi sjávarfangs er óheimil innan marka verndarsvæðisins.
  • Óheimilt er að kasta akkeri innan marka náttúruvættisins og einnig er óheimilt að setja hvers konar festingar eða merki við eða á hverastrýturnar.
  • Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til rannsókna, vöktunar og sýnatöku í tengslum við rannsóknir að fenginni umsögn samráðsnefndar.

Hverastrýtur á botni Eyjafjarðar voru fyrstu náttúruminjar á hafsbotni sem friðlýstar voru á Íslandi en friðlýsingin varð að veruleika árið 2001. Árið 2007 voru síðan hverastrýturnar norður af Arnarnesnöfum einnig friðlýstar.  Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda sérstæðar jarðmyndanir og lífríki, líffræðilega fjölbreytni og einstök náttúrufyrirbrigði sem felst í myndun hverastrýtnanna, efnasamsetningu, útliti og lögun, þ.m.t. örveruvistkerfi þrífst þar við óvenjulegar aðstæður.

Umhverfisstofnun vill brýna fyrir öllum þeim er fara um svæðið að virða þær umgengnisreglur sem um hverastrýturnar gilda þannig að hægt sé að komast hjá frekari skemmdum á þessum einstöku náttúrufyrirbrigðum.

Samráðsnefnd fyrir hverastrýturnar skipa:

  • Hildur Vésteinsdóttir formaður, Umhverfisstofnun
  • Axel Grettisson, Hörgársveit
  • Erlendur Bogason, fulltrúi áhugakafara á Norðurlandi
  • Gísli Viggósson, Siglingastofnun Íslands
  • Guðný Sverrisdóttir, Hafnarsamlag Norðurlands
  • Hlynur Ármannsson, Hafrannsóknarstofnun