Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur opnað tímabundna upplýsingasíðu vegna flúormengunar í Reyðarfirði. Á síðunni verða birtar þær upplýsingar sem tengjast málinu, s.s. fréttir og gögn frá Umhverfisstofnun og tenglar í efni frá öðrum stofnunum og aðilum eftir því sem við á.

Umhverfisvöktun vegna álvers Alcoa Fjarðaál í Reyðarfirði í sumar hefur leitt í ljós hækkaðan styrk á flúor í grasi í firðinum. Gildin eru umfram viðmið fyrir grasbíta (30-50 µg F/g fóður; grasbítar á mjólkurskeiði 30µg/g; annars 50µg/g) skv. reglugerð nr. 895/2009. Að mati Umhverfisstofnunar er ekki um að ræða hættu fyrir fólk en full ástæða til að bregðast við, kanna hvort áhrifa gæti í búfé í firðinum áður en teknar verði ákvarðanir um frekari aðgerðir. Tekin voru sýni af heyi frá nokkrum stöðum í firðinum nýlega og mældist styrkur flúors í tveimur sýnum af 17 umfram viðmið fyrir mjólkandi dýr en undir viðmiðunum fyrir önnur dýr.