Stök frétt

Ísland hefur nú í eitt ár tekið þátt í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eða frá 1. janúar 2012 þegar flugstarfsemi var felld undir kerfið. Þann 1. janúar 2013 verður gildissvið viðskiptakerfisins útvíkkað umtalsvert þegar margháttaðri staðbundinni iðnaðarstarfsemi verður bætt við kerfið.

Umhverfisstofnun hefur veitt níu starfandi fyrirtækjum losunarleyfi og þar með heimilað þeim að taka þátt í kerfinu. Þessi fyrirtæki eru: álver Alcan á Íslandi, Alcoa Fjarðaáls og Norðuráls Grundartanga; járnblendiverksmiðja Elkem Ísland; fiskmjölsverksmiðjur HB Granda Akranesi, Ísfélags Vestmannaeyja í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja Þórshöfn, Loðnuvinnslunnar Fáskrúðsfirði; og steinullarverksmiðja Steinullar hf. á Sauðárkróki. Einnig hefur álver Norðuráls í Helguvík losunarleyfi.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál, er Umhverfisstofnun heimilt að undanskilja fyrirtæki gildissviði viðskiptakerfis ESB með gróðurhúsalofttegundir, uppfylli þau tiltekin skilyrði. Umhverfisstofnun hefur með bréfum dags. 24. ágúst sl. samþykkt umsóknir fjögurra fyrirtækja um slíka undanþágu. Þessi fyrirtæki eru Steinull hf., HB Grandi Akranesi, Ísfélag Vestmannaeyja í Vestmannaeyjum og Ísfélag Vestmannaeyja Þórshöfn. Þessi fyrirtæki munu þurfa að ná sambærilegum árangri við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og þau fyrirtæki sem heyra undir kerfið. Þá verða þau háð losunargjaldi sem verður 1.338 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar árið 2013 skv. breytingu á lögunum sem Alþingi samþykkti skömmu fyrir jól.

Fimm starfandi fyrirtæki munu því bætast við kerfið hérlendis frá 1. janúar 2013, Alcan á Íslandi, Alcoa Fjarðaál, Elkem Ísland, Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði og Norðurál Grundartanga. Losun þessara fimm fyrirtækja árið 2010 nam um 38% af heildarlosun Íslands. Öll fyrirtækin hafa sótt um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til Umhverfisstofnunar og mun endanleg ákvörðun um úthlutun til þeirra fyrir árin 2013-2020 liggja fyrir á næsta ári (2013).

Almennt um viðskiptakerfið

Árið 2005 kom Evrópusambandið á fót viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Viðskiptakerfið, í almennu máli nefnt ETS (stendur fyrir Emission Trading System), gegnir lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandsins gegn loftslagsbreytingum því kerfið er helsta stjórntæki sambandsins til aðdraga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Gert er ráð fyrir að innan Evrópu verði losun árið 2020 21% minni en hún var árið 2005. 

Um og yfir 11.000 fyrirtæki á sviði orkuframleiðslu, olíuhreinsunar, járn- og stál framleiðslu, sem og brennsluver og fyrirtæki í framleiðslu á sementi, kalki, gleri, múrsteina, keramíkgleri, pappír, pappírsdeigi, og bylgjupappa falla nú þegar undir viðskiptakerfið í Evrópu. Samanlagt stafar um það bil 40% allra gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins frá þessum 11.000 fyrirtækjum.