Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út endurnýjað starfsleyfi fyrir fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar hf. í Helguvík, Reykjanesbæ. Starfsleyfið veitir rekstraraðila heimild til að framleiða fiskimjöl og lýsi úr fiski, afskurði og öðrum fiskúrgangi í verksmiðjunni. Verksmiðjunni er einnig heimil loðnuflokkun og hrognataka og að nýta í framleiðslu sína frákast frá þeirri vinnslu. Starfsleyfið gildir ekki um aðra vinnslu fiskafurða eða rekstur vélaverkstæðis. 

Hámarksafköst verksmiðjunnar eru miðuð við að framleitt verði úr allt að 1.200 tonnum af hráefni á sólarhring, sem er aukning úr 900 tonnum af hráefni á sólarhring í gildandi leyfi. Sú aukning hefur verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Niðurstaða Skipulagsstofnunar er að þessi afkastaukning fiskimjölsverksmiðjunnar sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Umhverfisstofnun auglýsti opinberlega tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 3. júní til 29. júlí 2013. Tillagan var, auk opinberrar auglýsingar, sérstaklega send til umsagnar hjá Heilbrigðisnefnd Suðurnesja og Síldarvinnslunni hf. Þá lá tillagan frammi í ofangreindan tíma á skrifstofu Reykjanesbæjar ásamt umsóknargögnum. Engin umsögn barst Umhverfisstofnun á auglýsingartíma, eða ósk um að haldinn væri kynningarfundur um tillöguna. Aðeins barst umsögn í umsagnarferli sem hafði átt sér stað fyrir auglýsingatímann (Heilbrigðisnefnd Suðurnesja 10. apríl 2013). Helsta athugasemd heilbrigðisnefndarinnar var að undanfarin ár hefur borið á ólykt frá vinnslunni í Reykjanesbæ. Sem mótvægisaðgerð er lagt til, að ef hráefni uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til TVN gildis í grein 2.2 í leyfisdrögum, þá væri réttast að banna vinnslu sé vindátt að byggð. Til að koma til móts við þessa ósk hefur leyfinu verið breytt þannig að efri mörk fyrir ferskleika hráefnis (TVN gildi) eru lækkuð úr 120 mg N /100 g í 100 mg N /100 g. Ef rekstraraðili fer yfir þessi mörk þarf hann að meta veðurfar, sérstaklega vindstyrk og stefnu og forðast vinnslu þegar vindátt er að byggð, ásamt því að tilkynna slíkt tilvik til Umhverfisstofnunar eins fljótt og mögulegt er. 

Nokkrar minni orðalagsbreytingar voru einnig gerðar. 

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 31. janúar 2030. Með gildistöku þessa starfsleyfis fellur úr gildi eldra starfsleyfi verksmiðjunnar frá 4. mars 2002 sem gefið var út af Hollustuvernd ríkisins.