Stök frétt

Umhverfisstofnun tók þátt í Hátíð hafsins í þriðja sinn nú í ár og var með sýningu í tjaldi á Grandagarði við sjóminjasafnið Víkina. Að þessu sinni bar sýning stofnunarinnar heitið Fjörulallar og var boðið upp á fræðslu fyrir fjölskylduna um það sem finna má á fjörugöngu og fleira sem tengist hafinu. Boðið var upp á þurrkaðan beltisþara og gestir gátu brugðið sér í gervi fiskvinnslufólks á Ísafirði um 1930 og látið taka af sér mynd. 

Gestir gátu einnig tekið þátt í getraun um fjöruna sem fólst í því að þreifa á hlutum inni í þar til gerðum kassa. Í kassanum voru nokkrir hlutir sem fundust í fjörunni við Gróttu, þ.e. bóluþang, kerlingarhár, steinn, öðuskel og plasttappi af gosflösku. Spurt var um hvaða hlutur hefði ekki átt að finnast í fjörunni og var rétta svarið að sjálfsögðu tappi (plasttappi). Alls tóku 237 manns þátt í getrauninni. 

Umhverfisstofnun þakkar öllum þeim sem skoðuðu sýningu stofnunarinnar á Hátíð hafsins og tóku þátt í getrauninni. Dregið hefur verið úr réttum svörum sem bárust og er vinningshafi Jóhanna Jónsdóttir. Hún fær í verðlaun bátsferð fyrir tvo að eigin vali með Láki Tours á Snæfellsnesi.