Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að nýju starfsleyfi fyrir fiskeldisstöð IceAq ehf., á reit i-5 á aðalskipulagi vestan Grindavíkur, Reykjanesi til eldis á allt að 3.000 tonnum samanlagt af bleikju og borra til manneldis, sem og seiðaeldi sömu tegunda. Leyfið gildir til fiskeldis en nær ekki til slátrunar.

Um nýja eldisstöð er að ræða og áætlað er að stöðin byggist upp í nokkrum áföngum á 5 ára tímabili. Mun stöðin nýta jarðhitavökva, affall frá orkuverinu í Svartsengi sem leiddur verður til sjávar um iðnaðarsvæðið. Seiðaframleiðsla mun fara fram í fiskeldisstöðinni í Fellsmúla eða þau keypt af öðrum seiðaframleiðendum. Verður fiskurinn fluttur lifandi til vinnslu inn í Grindavíkurbæ. Hugmyndafræði fyrirtækisins byggir á umhverfisvænni og sjálfbærri framleiðslu og starfar fyrirtækið eftir grænu hringferli sem byggir á því að nýta aðföng og orku á sem bestan hátt ásamt því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif eldisins. 

Niðurstaða Skipulagsstofnunar, frá 13. ágúst 2013, var sú að eldi á allt að 3.000 tonnum á bleiku og borra í fiskeldisstöð IceAq, vestan Grindavíkur, sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Starfsleyfistillagan er auglýst á tímabilinu 3. september 2014 til 31. október 2014. Hér að neðan má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar og umsóknargögnin. Einnig tilkynningu til Skipulagsstofnunar og niðurstöðu hennar. Gögnin munu einnig liggja frammi á bæjarskrifstofu Grindavíkurbæjar, Víkurbraut 62, Grindavík. Ekki er áformað að boða til kynningarfundar um tillöguna á auglýsingatíma nema eftir því verði sérstaklega óskað. 

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 31. október 2014.