Stök frétt

Fyrirhugaðar eru framkvæmdir á vegum Umhverfisstofnunar á Dynjanda til að tryggja verndun náttúruvættisins. Dynjandi er ein fjölsóttasta náttúruperla á Vestfjörðum. Náttúruvættið er eitt af þeim svæðum sem stofnunin telur að sé undir töluverðu álagi og þurfi að bregðast við því. Aðdráttarafl Dynjanda er mikið og ferðamönnum hefur fjölgað hratt á undanförnum árum og er því nauðsynlegt að gera svæðið í stakk búið til að taka á móti þessum aukna fjölda. Á undanförnum árum hefur verið farið í minniháttar framkvæmdir til að draga úr hnignun gróðurs og jarðmyndana umhverfis Dynjandisá. Helstu framkvæmdir hafa verið afmörkun göngustíga og lokun á aflögustígum, uppbygging og breikkun á neðsta hluta göngustígs og fjölgun og viðhald á stein- og viðarþrepum. Nú hefur verið gerð ráðstöfun til umbóta sem taka mið af heildarskipulagi svæðisins. Á síðasta ári var gerð fornleifaskráning á svæðinu og í vor var deiliskipulag samþykkt. Í ár var komið fyrir þurrsalerni sem verður opið þegar vatnsalernum er lokað í fyrstu frostum.

Í framhaldinu hefur verið unnið að hönnun stíga og útsýnispalla. Áfram verður unnnið að endurbótum á gönguleiðum og settir verða upp útsýnispallar á ákveðnum stöðum. Göngustígur frá bílastæði að fyrsta útsýnispalli verður gerður fær hjólastólum. Bílatæði verður stækkað og gerð stæði fyrir rútur. Tjaldsvæði verður einnig stækkað og svæði fyrir tjöld aðskilin frá húsbíla- fellihýsa- og hjólhýsasvæði. Aðstaða fyri úrgang verður bætt og komið á flokkun. Bætt verður við upplýsinga- og fræðsluskiltum og gömlu skiltin endurnýjuð.

Um Dynjanda

Vestfjarðakjálkinn er elsti hluti Íslands sem varð til í mörgum hraungosum á tertíertíma fyrir um 14-16 milljónum ára. Goslög af blágrýti og hraungjalli hlóðust hvert ofan á annað og mynduðu hásléttu. Ísöld lauk fyrir um 10.000 árum og hafði framskrið jökulsins þá grópað djúpa dali og firði í hásléttuna og sorfið niður mishörð millilögin. Eftir stóðu hörð blágrýtislög sem bera uppi fossastiga Dynjandisár. Áin á upptök sín í vötnum á Dynjandisheiði, aðallega Stóra- Eyjavatni. Sérstaða Dynjanda er fólgin í því hversu formfagur fossinn er þar sem hann steypist fram af fjallsbrúninni með miklum drunum sem berast langar leiðir og ber fossinn því nafn með rentu. Áin fellur áfram niður hlíðina í sjö fossum sem eru hver öðrum fegurri og fellur síðan í sæ í Dynjandisvogi. Dynjandi er tilkomumestur fossanna í ánni. Hann er 99 m hár, um 30 m breiður efst en 60 m neðst. Neðan hans eru fossarnir: Hæstahjallafoss (Úðafoss), Strompugljúfrafoss (Strompur), Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Kvíslarfoss, en neðstir eru Hundafoss og Bæjarfoss (Sjóarfoss).