Stök frétt

Höfundur myndar: Júlia Kovács

Sumarið líður fljótt og á hverju sumri keppast sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar við að klára þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á friðlýstum svæðum ár hvert. Í sumar hafa rúmlega 100 sjálfboðaliðar lagt okkur lið og unnið á Vestfjörðum, Suðurlandi, Austfjörðum, Vesturlandi, hálendinu og voru tveir hópar samankomnir á Norðurlandi Eystra til að vinna síðustu verk sumarsins. Sjálfboðaliðasumrinu lauk því í norðlenskri blíðu en tólf sjálfboðaliðar unnu á Mývatni og 11 í Ásbyrgi tvær vikur í ágúst. 

Sjálfboðaliðar UST vinna mikilvægt starf í þágu náttúruverndar og vinna að framkvæmdum og viðhaldi í nánd við okkar helstu náttúruperlur. Þau starfa í samvinnu við landverði og aðra starfsmenn svæðanna, aðallega við viðhald og lagningu göngustíga. Það er næstum öruggt að ef ferðamaður drepur fæti á göngustíg einhvers staðar í þjóðgarði eða gengur upp steinlagðar tröppur við eitthvert náttúruvætti að stígurinn hefur verið lagður í sjálfboðavinnu. 

Stór sjálfboðaliðahópur var eins og áður sagði samankominn á Mývatni frá 11. - 24. ágúst en þetta er þá í annað skiptið sem sjálfboðaliðar vinna við Mývatn í sumar. Meðal verkefna sem unnin voru í sjálfboðaliðavinnu í ágúst má nefna að stikuð var leið um Seljahjallagil, viðgerðir gerðar á göngustíg við Vindbelg og unnið var að tröppugerð við hlíðar fjallsins. Þá hafa gönguleiðir verið afmarkaðar og lagfærðar við Kálfaströnd, Strípa og í hlíðum Hverfjalls (Hverfells). 

Í Ásbyrgi vann 11 manna hópur í sjálfboðaliðavinnu á sama tímabili. Meðal framkvæmda þar má nefna viðhald göngustíga við Dettifoss, lagfæringu og breikkun göngustígs sem liggur frá tjaldstæðinu í Ásbyrgi í átt að Tjörninni. Þá voru lagðar litlar göngubrýr og dren á gönguleiðum frá Ásbyrgi í átt að Vesturdal. 

Mikil hefð er fyrir sjálfboðaliðavinnu í göngustígagerð á Íslandi. Starfið sjálft er krefjandi og oft þarf að leita lausna við erfiðar aðstæður. Það er því mikilvægt að þau sem vinna að göngustígagerð séu með góða þjálfun og næma tilfinningu fyrir umhverfinu. Umhverfisstofnun hefur um árabil fengið til sín sjálfboðaliða og þjálfað þá sérstaklega í göngustígagerð við íslenskar aðstæður. Þá hefur stofnunin verið í samstarfi við önnur sjálfboðaliðasamtök og má nefna að hópurinn sem vann við Mývatn í ágúst samanstendur af sjálfboðaliðum Seeds sem og liðstjórum Umhverfisstofnunar. 

Það er mikill fengur að þessu vinnuframlagi sjálfboðaliðanna og hefur Umhverfisstofnun verið svo lánsöm að fá til sín sjálfboðaliða með gríðamikla þekkingu og reynslu af baki. Margir hverjir koma þeir aftur ár eftir ár og halda áfram með verkefnin þar sem frá var horfið sumarið á undan. Er oft um að ræða fólk með jarðfræðimenntun, náttúrufræðinga og aðra sérmenntaða aðila sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið ástfóstri við náttúru Íslands og nýtur þess að geta stuðlað að náttúruvernd hérlendis.