Stök frétt

Árið 2013 komu 15 tonn af plöntuverndarvörum til tollafgreiðslu og þar af voru 4 tonn (29%) tollafgreidd án þess að veitt hafi verið heimild til þess af hálfu Umhverfisstofnunar. Til samanburðar voru 35 tonn af plöntuverndarvörum tollafgreidd árið 2012 og þarf af var ekki veitt heimild til tollafgreiðslu fyrir 3 tonnum (8%). Þetta kemur fram í úttekt sem unnin var hjá Umhverfisstofnun. 

Plöntuverndarvörur eru háðar markaðsleyfum og í ljósi úttektarinnar er mikilvægt að bæta vinnubrögð við tollflokkun á þeirra hjá þeim aðilum sem setja vörurnar á markað hér á landi. 

Umhverfisstofnun notar upplýsingar um tollafgreiðslu plöntuverndarvara við skil á gögnum til alþjóðastofnana og fleiri aðila um sölu og notkun á þessum vörum hér á landi. Það er því afar mikilvægt að stofnunin hafi undir höndum áreiðanleg gögn, svo hún geti sinnt hlutverki sínu á þessu sviði sem skyldi.