Stök frétt

Ágætis byrjun er verkefni sem Umhverfisstofnun stendur fyrir til að kynna Svaninn og hvetja foreldra til að nota umhverfismerki sem hjálpartæki við vöruval. Verkefnið gengur út á að kynna umhverfismerkið Svaninn og dreifa Svanspokum til verðandi og nýbakaðra foreldra. 

 Í daglegu lífi komast allir í snertingu við óteljandi efni sem mörg hver eru varasöm. Ekki ætti þó að láta sér fallast hendur því með því að velja umhverfisvottaðar vörur fram yfir aðrar tekur maður sjálfur stjórnina og velur í auknum mæli hvaða efni maður kemst í snertingu við. Svanurinn gengur lengra en löggjöf einstakra landa hvað varðar bann við notkun á skaðlegum efnum. Þannig veitir Svanurinn neytendum vissu fyrir því að búið er að takmarka notkun varasamra efna. 

Verkefnið er unnið að norskri fyrirmynd en þar hefur sambærilegt verkefnið verið í gangi síðan árið 2005. Í pokunum er bæklingur sem fjallar um umhverfismerkið Svaninn og mikilvægi þess að velja umhverfisvottað fyrir ungabörn. Í pokanum eru einnig vöruprufur en tilgangurinn er ekki að kynna einstök vörumerki heldur að varpa ljósi á að Svanurinn hefur vottað breytt úrval af ungbarnavörum og því hafa foreldrar raunverulegt val um vöru sem er betri fyrir umhverfi og heilsu. Verkefnið var áður keyrt árin 2011-2013 við mjög góðar undirtektir. Því er ætlað að ná til alls landsins og er miðað við að öll börn fædd á Íslandi á tímabilinu maí 2015 til september 2016 fái pokann. 

Svanspokunum er dreift víða um landið, m.a. af fæðingadeildum, heilsugæslustöðvum og ljósmæðrum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu hjá aðilum sem bjóða upp á meðgöngujóga, meðgöngunudd, þrívíddarsónar og foreldramorgna. Hægt er að nálgast Svanspoka í Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24.