Stök frétt

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að verja í sumar 850 milljónum króna til brýnna uppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Ráðist verður í 104 verkefni á 51 stað á landinu, auk þess sem viðbótarfé verður varið til aukinnar landvörslu um allt land. Mest verður framkvæmt í Skaftafelli og á Þingvöllum, við Geysi, í Dimmuborgum, á miðhálendinu, við Gullfoss, Dyrhólaey, Dynjanda, Stöng í Þjórsárdal og Dettifoss. Verkefnin eru af ýmsum toga en megináhersla er lögð á framkvæmdir vegna göngustíga, útsýnispalla, bílastæða og salernisaðstöðu, segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni

Umhverfisstofnun fagnar þessu framlagi ríkisstjórnarinnar til verndunar náttúru Íslands. Hér er um að ræða brýnar mótvægisaðgerðir vegna komu stóraukins fjölda ferðamanna. Landið hefur látið töluvert á sjá vegna ágangs og með þessu framlagi er stigið stórt skref í þá átt að draga úr og koma í veg fyrir frekari skaða á náttúru Íslands. Umhverfisstofnun hefur undanfarin ár haft áhyggjur af mörgum þessara svæða og hefur sett nokkur þeirra á rauðan lista sem þýðir að verndargildi þeirra er í hættu. Með þessari aukafjárveitingu verður þessari neikvæðu þróun vonandi snúið við og svæðum fækkað á rauða listanum. 

Mikilvægt er að hafa í huga þegar rætt er um aukningu á fjölda ferðamanna til landsins að ferðamenn vilja sjá óspillta náttúru og það verður að tryggja að við höfum nægilega góða innviði til að taka á móti þeim og viðhalda svæðum þannig að sómi sé að. Í framhaldinu er nauðsynlegt að móta stefnu um hvaða svæði það eru sem við viljum byggja upp til að þola ágang ferðamanna. Við getum verið sammála um að það er gott að byggja upp við Gullfoss og Geysi en það á ekki endilega við um önnur svæði eins og Hornstrandafriðland, Þjórsárver og fleiri viðkvæm svæði. 

Það er áríðandi að hefja framkvæmdir sem fyrst enda er það tímabil sem við höfum mjög stutt og við þurfum að hafa samráð við sveitarfélög og landeigendur á hverjum stað. Ferðafólk má búast við einhverri röskun á sínum ferðalögum um landið vegna framkvæmdanna.