Stök frétt

Í október 2012 tók gildi ný reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna, oftast kölluð CLP, sem innleidd var hér á landi í reglugerð nr. 415/2014. Til að byrja með gilti reglugerðin eingöngu um hrein efni, en frá og með 1. júní 2015 gildir hún einnig um efnablöndur. Öll hrein efni og efnablöndur sem markaðssett eru eftir 1. júní 2015 skulu því flokkuð og merkt samkvæmt CLP reglugerðinni. Dæmi um breytingu úr gömlu hættumerki yfir í nýtt má sjá hér að neðan. Athugið þó að með nýjum reglum kann flokkun efna og efnablandna að breytast og þau geta því fengið önnur og/eða fleiri hættumerki en áður. 

Birgjar efna og efnablandna, þ.e. framleiðendur, innflytjendur og söluaðilar, bera ábyrgð á því að þau séu rétt merkt og í viðeigandi umbúðum. Dæmi um efnablöndur sem algengt er að falli undir CLP reglugerðina eru t.d. hreinsiefni, málning, lím og plöntuverndarvörur. Efnablöndur merktar samkvæmt eldra kerfi og sem komnar voru á markað fyrir 1. júní 2015 verður heimilt að selja fram til ársins 2017 en eftir það verður með öllu óleyfilegt að markaðssetja vörur með gömlum hættumerkingum.