Stök frétt

Höfundur myndar: Iain Sarjeant

Illgresiseyðar sem innihalda virka efnið glýfosat eru meðal mest seldu plöntuverndarvara á heimsmarkaði í dag og er Roundup án efa langþekktasta vöruheitið. Tíu mismundandi plöntuverndarvörur sem innihalda glýfosat eru með tímabundna skráningu hér á landi, sem þýðir að heimilt er að setja þær á markað hjá okkur.

Að undanförnu hafa borist fréttir af því að plöntuverndarvörur sem innihalda virka efnið glýfosat kynnu að valda krabbameini í mönnum. Þetta er áhyggjuefni því að notkun á þessum vörum er almenn, bæði hjá almenningi og þeim sem starfa við plöntuvernd í atvinnuskyni. Í ljósi þessara frétta hefur þeirri spurningu hefur verið velt upp, hvort ekki sé tímabært að banna allar plöntuverndarvörur hér á landi sem innihalda virka efnið glýfosat. Til þess að svara því þarf að skoða þær reglur sem gilda um  plöntuverndarvörur hér á landi. Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið ber Íslandi að innleiða reglur ESB um plöntuverndarvörur og mun  reglugerð Evrópusambandsins nr. 1107/2009 um setningu plöntuverndarvara á markað verða innleidd hér á landi innan skamms. Þá munu gilda sömu reglur hér á landi og innan ESB hvað þetta varðar.

Í dag er glýfosat samþykkt á vettvangi ESB til að nota í plöntuverndarvörum og gildir sú heimild  til 31. desember  2015. Ári síðar falla úr gildi öll markaðsleyfi fyrir vörur sem innihalda þetta virka efni. Nú stendur yfir endurskoðun á áhættumati  fyrir virka efnið glýfosat sem Þýskaland vinnur að. Samkvæmt reglum ESB skal áhættumatinu vera lokið fyrir 31. desember  2015 og þá mun liggja fyrir ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um það hvort glýfosat verði samþykkt áfram ellegar bannað á vettvangi ESB.

Verði það niðurstaða úr áhættumatinu að glýfosat geti valdið krabbameini, mun Framkvæmdastjórn ESB án efa þrengja verulega heimildir til markaðssetningar á plöntuverndarvörum sem innhalda þetta virka efni og mun sú niðurstaða einnig gilda hér á landi.
Fari svo að virka efnið glýfosat verði ekki samþykkt til notkunar í plöntuverndarvörum munu núverandi leyfi fyrir plöntuverndarvörum sem innihalda glýfosat renna út og engar vörur sem innihalda þetta virka efni verða leyfðar á markaði.