Stök frétt

Þá hefur líklega rekið í rogastans, ferðamennina sem lögðu bílnum sínum í jaðri Reykjanesfólkvangs í vikunni og röltu spölkorn út í hraunið eftir gömlum bílslóða. Áttu þeir von á enn einu náttúruundrinu? Álfahól? Hellisskúta? Það sem við þeim blasti var allt annað: Rusl og drasl, svo langt sem augað eygði.

Umgengni innan Reykjanesfólkvangs hefur sums staðar verið mjög slæm um árabil. Lengi hefur þekkst að fólk losar sig við ýmis konar rusl innan fólkvangsins, svo sem úrgang úr byggingarvinnu, raftæki, timbur og annan skilagjaldsskyldan úrgang.

Reykjanesfólkvangur var friðlýstur árið 1975 og umsjón hans er í höndum sveitarfélaga á suðvesturhorninu. Fólkvangurinn er í raun eins og opin kennslubók í jarðfræði – svo fjölbreytt og ríkuleg er jarðfræði svæðisins – enda hefur hann oft og tíðum þjónað sem slík. Með fjölgun ferðamanna á Íslandi almennt fjölgar einnig þeim sem ferðast um Reykjanesfólkvang. Líklega eru ferðamennirnir tveir sem gengu fram á ruslahauginn nú í vikunni ekki þeir fyrstu sem lenda í slíku.

Starfsmaður Umhverfisstofnunar var við eftirlit í Reykjanesfólkvangi þennan dag og sá fyrrnefnda ferðamenn hraða sér til baka að bílnum sínum. Hann fór því og forvitnaðist um það sem misbauð ferðamönnunum svo. Myndir fylgja með svo lesendur geti séð ummerkin með eigin augum.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er þetta svæði í jaðri Reykjanesfólkvangs, mörg hundruð fermetrar, nýtt sem ruslahaugur og skotæfingasvæði. Meðal þess sem undirrituð fann voru sundurskotin þvottavél og frystikista, raftæki, timbur, einangrunarrör og fjölmargt sem til fellur við endurbætur á húsnæði eða í iðnaði, svo sem haugar af flísum, steypuúrgangur, vírar og plastslöngur. Tóm skothylki lágu eins og hráviði um svæðið allt og skiptu þúsundum.

Umhverfisstofnun hefur undanfarin sumur staðið að ruslhreinsun innan fólkvangsins ásamt sjálfboðaliðum stofnunarinnar. Sú vinna er bæði tíma- og mannaflsfrek og amalegt að um leið og hreinsun á einu svæði lýkur, þurfi vart nema að snúa sér við og hefjast handa á ný. Það er óásættanlegt að svona sé gengið um viðkvæm landsvæði innan og í jaðri fólkvangs og fer slík umgengni þvert á tilgang friðlýsingar fólkvangsins.

Umhverfisstofnun hefur áður brýnt fyrir fólki að losa sig ekki við rusl og úrgang á víðavangi. Þó er ljóst að sumir láta slíkar orðsendingar sem vind um eyru þjóta. Umgengni við landið, hvort sem það er friðlýst eður ei, er gríðarlega stórt hagsmunamál þjóðar sem treystir á ferðamennsku og ímynd hreinnar náttúru til að afla sér tekna og atvinnu. Sóðaskapur og sinnuleysi í og við Reykjanesfólkvang ætti því að vera liðin tíð.