Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Thorsil ehf. til kísilframleiðslu á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

Tillaga að starfsleyfi var auglýst á tímabilinu 28. maí til 23. júlí 2015. Haldinn var kynningarfundur þann 24. júní s.l. í Duushúsi, Reykjanesbæ. Þar var tillagan kynnt og gefinn kostur á fyrirspurnum og umræðum.

Fimm umsagnir bárust á auglýsingatíma. Þær fjölluðu um efnisleg atriði tillögunnar, t.d. einstök losunarmörk, villur í textanum og stjórnsýslu Umhverfisstofnunar. Fáeinar breytingar voru gerðar á tillögunni, flestar í beinu framhaldi af athugasemdum, og þar var aðallega um að ræða leiðréttingar á texta. Þá voru losunarmörk fyrir B(a)P (bensó[a]pýren) og kvikasilfur rýmkuð nokkuð frá auglýstri tillögu að ósk rekstraraðila. Nánar er gerð grein fyrir þessum athugasemdum og hvernig brugðist var við þeim í sérstakri greinargerð sem fylgir fréttinni.

Starfsleyfið gefur heimild til að framleiða í fjórum ljósbogaofnum allt að 110.000 tonnum á ári af hrákísli (>98% Si) og allt að 55.000 tonnum af kísildufti og 9.000 tonnum af kísilgjalli. Rekstraraðila verður heimilt starfrækja verkstæði og aðra þjónustu sem heyrir beint undir starfsemina.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 11. september 2031.

Tengd skjöl