Stök frétt

Farið var í sýnatökuferð í Faxaflóa á þriðjudaginn á vegum norræna umhverfisvöktunarhópsins, Nordic Screening Group, á bátnum Sæmundi Fróða ásamt starfsmönnum hans frá Háskóla Íslands. Fulltrúi Íslands í hópnum tók sýni af sjávarseti við útrásarenda skólphreinsistöðvarinnar í Klettagörðum, 5 km frá landi, auk þess sem fimm þorskar voru veiddir á staðnum. Einnig var tekið sýni af fráveituvatni úr skólphreinsistöðinni.

Sýnin eru nú á leið til Noregs til greiningar þar sem skimað verður fyrir mengunarefnum sem finna má í ýmsum neysluvörum, þar á meðal per- og polyflúoreðuðum alkýl samböndum og bisphelon efnum, og hvort þau safnist fyrir í sjávarseti og fiski í grennd við útrásina.  Verkefnið er samnorrænt og er sýnum af fráveituvatni, sjávarseti og fiski einnig safnað við Finnland, Svíþjóð, Noreg, Danmörku, Færeyjar og Grænland.