Stök frétt

Umhverfisstofnun bauð í samstarfi við Mosfellsbæ til opins fundar um heilsusamlegan og grænan lífsstíl í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ á Degi íslenskrar náttúru, þann 16. september síðastliðinn. Góður andi var á fundinum sem þótti mjög upplýsandi.  Útvarpsmaðurinn Sigurjón M. Egilsson stýrði fundinum og umræðum eftir hann.

Elva Rakel Jónsdóttir umhverfisfræðingur hjá Umhverfisstofnun fjallaði um plastpoka og sóun á þeim. Benti Elva á að hver plastpoki sé notaður í um 25 mínútur og endi síðan í ruslinu eða úti í náttúrunni. Um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn og benti hún í framhaldinu á að til þess að framleiða þennan fjölda poka þurfi um 2.240 tonn af olíu. 

„Plast brotnar varla niður í náttúrunni heldur molnar niður og berst út í haf. Allt það plast sem framleitt hefur verið í þá öld síðan framleiðsla þess hófst er því í reynd enn til í einni eða annarri mynd. Og fyrir Íslendinga sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi er það alvarlegt umhugsunarefni að um 8% allra plastpoka endar í hafinu en það jafngildir um 5 milljónum plastpoka á Íslandi árlega,“ sagði Elva Rakel á fundinum.

Gígja Gunnarsdóttir, íþrótta- og heilsufræðingur hjá Embætti landlæknis fjallaði um tengslu grænna svæða í þéttbýli við lýðheilsu. Fram kom í máli Gígju að græn svæði stuðli almennt að meiri hreyfingu íbúa og þ.a.l. betri heilsu. Þannig minnki streita, svefninn verði betri og vanlíðan minni. Þá er minni glæpatíðni, árásarhneigð og minna ofbeldi í samfélögum sem státa af grænum svæðum í borgarskipulaginu.

Gígja sagði ennfremur að mikilvægt sé að vekja áhuga barna á útiveru og náttúru fyrir 12 ára aldur því eftir það sé erfiðara að ná til þeirra og vekja áhuga á til dæmis umhverfismálum. Þannig sé líklegra að þeir hinna fullorðna sem búi yfir ríkri umhverfisvitund í dag hafi varið tíma í náttúrunni í æsku.   

Kolbrún Björnsdóttir, fjölmiðla- og hjólakona sagði frá reynslu sinni af því að leggja bílnum nær alfarið og hjóla allt sem hún fer á öllum tíma árs og Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur hjá Heilsuvin sagði frá samstarfinu við Mosfellsbæ undir kjörorðunum „Heilsueflandi samfélag“.