Stök frétt

Höfundur myndar: Cédric Puisney

Þann 15. desember síðastliðinn féll dómur í Evrópudómstólnum, þar sem Svíþjóð hafði stefnt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir aðgerðarleysi þar sem framkvæmdastjórnin átti fyrir árslok 2013 að ákveða hvaða viðmið eiga að gilda þegar verið er að skilgreina hormónaraskandi efni.  Ekkert hefur gerst í málinu og sumarið 2014 stefndi Svíþjóð framkvæmdastjórninni fyrir aðgerðaleysi og féll dómur í málinu, Svíþjóð í hag.

„Þessi dómur eykur möguleika á að vernda fóstur og smábörn gegn hættulegum efnum í framtíðinni.  Nú er mikilvægt að framkvæmdastjórnin setji viðmið fyrir hvaða efni eru hormónaraskandi svo hægt sé að hætta notkun þeirra" segir Nina Cromnier forstjóri Umhverfisstofnunar Svíþjóðar. Hormónaraskandi efni geta haft áhrif á hormónakerfi líkamans. Áhrif þeirra eru margvísleg, allt frá fæðingargöllum af ýmsu tagi og efnaskiptavandamálum til krabbameina. Það eru sérstaklega smábörn og fóstur sem eru næm fyrir hormónaraskandi efnum. Þau geta haft áhrif á þroska heilans á fósturstigi og aukið áhættu á að þau fái ýmsa sjúkdóma seinna á lífsleiðinni. Þessi efni geta einnig haft áhrif á möguleikann á að geta barn.

Fólk kemst í snertingu við hormónaraskandi efni í daglegu lífi, til dæmis geta þau komið úr umbúðum utan um matvæli, snyrtivörum og fatnaði. Einnig mögulega frá plöntuverndarvörum í gegnum fæðukeðjuna.