Stök frétt

Sumarið 2016 hóf Umhverfisstofnun vöktun á ströndum, samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR. Með vöktuninni uppfyllir Ísland hluta af aðgerðaráætlun OSPAR, um að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum. OSPAR er samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins sem Ísland hefur staðfest.

Vaktað er fyrirfram afmarkað svæði á hverri strönd. Tilgangur vöktunarinnar er að finna uppruna rusls á ströndum, hvaða flokkar rusls safnast mest fyrir, meta magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil og að fjarlægja ruslið.

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar hefur verið opnað sérstakt svæði um vöktun stranda og má þar einnig lesa skýrslu, samantekt með niðurstöðum fyrir árin 2016 og 2017.

Fylgst verður með Bakkavík á Seltjarnarnesi, Búðavík á Snæfellsnesi, Rauðasandi, Surtsey (bæði vestan og austan) og Rekavík á Hornströndum. Umhverfisstofnun vonast til að fleiri strandir verði vaktaðar síðar.