Stök frétt

Hverasvæði við Brennisteinsöldu innan friðlands að Fjallabaki eru nú undir talsverðu álagi vegna ágangs ferðamanna. Mikil fjöldi fólks gengur að Brennisteinsöldu á degi hverjum yfir sumartímann og telur Umhverfisstofnun mikilvægt að auka stýringu um svæðið. Hverahrúður umhverfis hverina skemmast auðveldlega ef gengið er á þeim og er því nauðsynlegt að girða af hverasvæði sem liggja næst göngustígunum og bæta við leiðbeinandi skiltum.

Talsverð vinna hefur falist í því að koma öllum girðingastaurunum inn á svæðið sem er fyrir innan Laugahraun í Landmannalaugum. Erfiðast var að koma staurunum síðasta spölinn þar sem ekki var fært með vélhjólbörur. Fengu landverðir Umhverfisstofnunar aðstoð frá hálendisvakt Slysavarnafélags Landsbjargar ásamt því að göngufólk sem átti leið um greip með sér nokkra staura.

Girðingarnar falla vel að umhverfinu og með því að fjarlægja steina sem raðað hefur verið upp meðfram hverasvæðinu eru neikvæð sjónræn áhrif mun minni og verndun svæðisins skilvirkari.

Myndin sýnir hóp fólks sem komið hefur að uppbyggingunni undanfarið.