Stök frétt

Eins og flestir vita valda ökutæki í lausagangi heilsuspillandi mengun. Færri vita e.t.v. að það er bannað samkvæmt lögum að láta kyrrstætt ökutæki ganga lengur en í örstutta stund, nema sérstaklega standi á.

Reglur um lausagang bifreiða er að finna í umferðarlögum nr. 50/1987, en samkvæmt 35 gr. segir: „Ökumaður vélknúins ökutækis skal haga meðferð þess og akstri þannig, að frá því stafi eigi hávaði eða loftmengun að óþörfu.“ Í  6.2. grein reglugerðar nr. 788/1999 um varnir gegn loftmengun af völdum hreyfanlegra uppsprettna  er einnig kveðið á um að: „Óheimilt er að skilja ökutæki eftir í gangi þegar þau eru yfirgefin. Jafnframt er óheimilt að láta vélar kyrrstæðra ökutækja ganga lengur en í örstutta stund nema sérstaklega standi á. Regla þessi á ekki við um ökutæki lögreglu, slökkviliðs o.þ.h.

Ökutæki í lausagangi losar mikið magn af loftmengandi efnum sem geta verið heilsuspillandi. Að anda að sér mikilli loftmengun getur valdið fólki töluverðum óþægindum svo sem ertingu í öndunarfærum og augum. Einnig hefur verið sýnt fram á að aukin loftmengun eykur líkur á hjartaáföllum og heilablóðföllum auka annarra heilsuspillandi áhrifa. Algengt er að sjá ökumenn sendiferðabíla  afferma bílinn meðan hann er í gangi. Ökumaðurinn sjálfur andar þá að sér mestu menguninni. Því er til mikils að vinna fyrir ökumanninn að draga úr mengun frá bílnum með því að hafa hann ekki í lausagangi, þar sem því verður við komið.

 

Markmið í aðgerðum stjórnvalda tengdum loftgæðum, Hreint loft til framtíðar – Áætlun um loftgæði á Íslandi 2018/-2029[1] er að draga úr mengun frá umferð og þar á m.a. við að takmarka lausagang ökutækja.

Umhverfisstofnun vill biðla til ökumanna að virða rétt fólks til að anda að sér heilnæmu lofti. Stofnunin vill sérstaklega biðla til ökumanna að hafa ekki ökutæki í lausagangi að óþörfu og þá sérstaklega við heilbrigðisstofnanir, grunnskóla, leikskóla og við íbúðarhús. Með aukinni vitundarvakningu drögum við úr mengun og aukum heilnæmi nærumhverfis okkar allra.