Stök frétt

Tröppustígur við Saxhól í þjóðgarðinum Snæfellsjökli, í umsjá Umhverfisstofnunar, hlaut alþjóðlega viðurkenningu um helgina fyrir hönnun í landslagsarkítektúr.

Það var Teiknistofan Landslag sem hannaði stíginn fyrir Umhverfisstofnun og hlaut The Rosa Barba Prize verðlaunin á tvíæringnum í Barcelona. Áður hefur stígurinn verið tilnefndur til verðlauna og vakið athygli hönnuða.

Saxhóll er 45 metra hár gígur, yst á Snæfellsnesi. Ólafur A. Jónsson sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun segir gleðilegt hve hönnun og framkvæmd stígsins hafi tekist vel. Nokkur kúnst sé að hanna mannvirki sem falli vel að viðkvæmri náttúru landsins og hafi aukinheldur mikilvægt notagildi. Umhverfisstofnun fagni viðurkenningunni.