Stök frétt

Á undanförnum árum hefur staðið yfir átak í gerð stjórnunar- og verndaráætlana hjá Umhverfisstofnun. Friðlýst svæði eru mörg hver undir miklu álagi og mikilvægt að bregðast við því með frekari uppbyggingu og stjórnun. Umhverfisstofnun hefur umsjón með yfir 100 friðlýstum svæðum á Íslandi og hefur það hlutverk að annast gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir þessi svæði.

 

Vinnan við gerð áætlana hefst á því að samstarfshópur er stofnaður sem samanstendur vanalega af fulltrúum frá Umhverfisstofnun, fulltrúa sveitarfélags fulltrúum rétthafa lands og eftir atvikum fulltrúum fagstofnana og hagsmunaaðila. Drög að áætlun eru unnin í samstarfi við samstarfshóp og þau kynnt í 6 vikur þar sem öllum sem hafa áhuga á gefst tækifæri á að koma með athugasemdir.  

 

Í stjórnunar- og verndaráætlunum er mótuð stefna í stjórnun og uppbyggingu á friðlýstum svæðum og aðgerðir skipulagðar og þeim forgangsraðað í aðgerðaáætlun. Við vinnslu áætlananna er lögð mikil áhersla á samráð og samvinnu.

 

Sem dæmi um samráð þá var haldinn opinn kynningarfundur 10. október síðastliðinn í Öræfum vegna kynningarferlis á stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið í Ingólfshöfða. Áður en fundurinn hófst var boðið upp á ferð í höfðann fyrir áhugasama. „Á fundinum fóru þátttakendur yfir drög að áætluninni og settu niður á blað viðbætur, ábendingar og athugasemdir. Í þeirri samantekt kom ýmislegt fram sem verður nýtt til að bæta stjórnunar- og verndaráætlun Ingólfshöfða.

 

Fjórir starfsmenn frá Umhverfisstofnun fóru með í ferðina , Þórdís Björt Sigþórsdóttir frá teymi friðlýsinga og áætlana (ritstjóri áætlunarinnar og fulltrúi í samstarfshóp), Hákon Ásgeirsson frá teymi Náttúrusvæðateymis suðurs (sérfræðingur á svæðinu og fulltrúi í samstarfshóp), Fanney Gunnarsdóttir landvörður á Suðurlandi og Svava Pétursdóttir, lögfræðingur frá teymi friðlýsinga og áætlana. Ferðin út í höfðann var bæði skemmtileg og fróðleg, enda náttúrufegurð mikil. Fundurinn gekk mjög vel og margar góðar athugasemdir komu fram sem munu nýtast við að gera áætlunina enn betri.

 

Fyrir áhugasama þá eru drög að stjórnunar- og verndaráætlun vegna friðlands í Ingólfshöfða í kynningu til og með 25. október n.k. og er öllum velkomið að senda inn athugasemdir og ábendingar:
 

https://ust.is/einstaklingar/nattura/verndaraaetlanir-i-kynningu/fridlandid-i-ingolfshofda/